Erlent

Græddi stórfé á sigri sonarins

Stefán Ó. Jónsson skrifar

Faðir golfarans Rory McIllroy vann 100 þúsund pund, tæplega 20 milljónir króna, í veðmáli sem hann gerði fyrir um áratug síðan.

Gerry McIllroy veðjaði 200 pundum árið 2004 að sonur hans, þá fimmtán ára gamall, myndi sigra Opna breska meistaramótið einhvern tímann á næstu tíu árum en stuðulinn var þá 500-1.

Vinir McIllroy-fjölskyldunnar veðjuðu einnig á sigur Rorys árið 2005 undir sömu formerkjum og lögðu þeir 200 pund undir. Þeir lögðu einnig önnur 200 pund á það að strákurinn myndi hafa sigur á mótinu áður en hann yrði fimmtugur. Stuðlar veðmálana voru 250-1 og 150-1 og eiga fjölskylduvinirnir því von á greiðslu upp á 80 þúsund pund.

„Þetta eru mestu útgjöld sem við höfum þurft að standa straum af síðan Tiger Woods vann mótið árið 2006. Þrátt fyrir mikið tap getum við þó ekki gert annað en dáðst að fyrirhyggju föður McIllroys og félaga hans fyrir hartnær áratug síðan,“ segir Jessica Bridges talskona veðmálasíðunar Ladbrokes í yfirlýsingu frá fyrirtækinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×