Erlent

89 manns féllu í sjálfsmorðsárás í Afganistan

Randver Kári Randversson skrifar
89 manns féllu í árásinni og olli sprengingin mikilli eyðileggingu.
89 manns féllu í árásinni og olli sprengingin mikilli eyðileggingu. Vísir/AFP
Að minnsta kosti 89 manns féllu í sjálfsmorðsárás á markaði í þorpi í austurhluta Afganistans í dag. Árásin er ein sú mannskæðasta í landinu í nokkra mánuði. Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á sprengingunni og hafa Talibanar neitað aðild að árásinni. BBC greinir frá þessu.

Markaðurinn var fullur af fólki sem var að versla fyrir Ramadan-hátíðina þegar bíl, sem var hlaðinn sprengiefnum, var ekið inn í mannfjöldann. 89 manns létust og 42 slösuðust. Flestir hinna látnu voru konur og börn. Að sögn lækna í þorpinu eru spítalar yfirfullir af slösuðu fólki.

Óttast er að deilan um niðurstöðu forsetakosninganna, sem fram fóru í Afganistan í síðasta mánuði, ýti undir óstöðugleika í landinu. Aðeins eru nokkrir dagar síðan forsetaframbjóðendurnir Abdullah Abdullah og Ashraf Ghani, náðu samkomulagi um að hlíta niðurstöðu endurtalningar atkvæða eftir ásakanir um að ekki hafi verið staðið rétt að kosningunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×