Erlent

Spilaði Whigfield til að losna við Róma-fólk

Atli Ísleifsson skrifar
Plötusnúðurinn spilaði háværa tónlist frá níu um morguninn til hádegis.
Plötusnúðurinn spilaði háværa tónlist frá níu um morguninn til hádegis. Vísir/AFP
Borgarstjóri Landen í Belgíu fékk fyrr í vikunni plötusnúð til að spila háværa tónlist svo að Róma-fólk myndi yfirgefa lóð í borginni þar sem það hafði gert sig heimakomið.

Róma-fólkið kom til Landen, sem er um fimmtíu kílómetrum austur af Brussel, á sunnudaginn og átti það upphaflega að yfirgefa staðinn á þriðjudaginn að sögn borgarstjórans Gino Debroux. „Þeir hafa neitað því og eru þarna með þrjátíu húsvagna. Þetta er iðnaðarhverfi, ekki tjaldsvæði,“ sagði Debroux í samtali við Reuters.

Í tilraun til að fá eigendur húsvagnanna á brott réð borgarstjórinn plötusnúð til starfa og fyrirskipaði honum að spila tónlist á 95 desibela styrk, en það jafnast á við að hlusta á loftbor í um fimmtán metra fjarlægð. „Þetta er leið til að þrýsta á þá. Þetta er leið til að ná samkomulagi sem felur ekki í sér ofbeldi,“ sagði borgarstjórinn.

Tónlistin var spiluð frá klukkan níu að morgni og til hádegis. Byrjaði hann á því að spila lagið „Sultans of Swing“ með Dire Straits, en á myndbandi frá vettvangi má heyra að Róma-fólkið hafi einnig þurft að hlýða á lagið „Saturday Night“ með dönsku söngkonunni Whigfield.

Einn húsvagnseiganda sagðist þó vilja þakka borgarstjóranum. „Það var vinalegt af honum að senda plötusnúð á staðinn svo við gætum haldið veislu.“

Róma-fólkið og borgarstjórinn hafa nú náð samkomulagi um að það yfirgefi lóðina síðar í dag.

Ákvörðun borgarstjórans hefur vakið mikið umtal í Belgíu og hafa margir lýst yfir óánægju sinni, þar með taldir samflokksmenn hans í Socialistische Partij Anders.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×