Erlent

Skotar deila líka hart um ummæli Junckers

Atli Ísleifsson skrifar
Alex Salmond, forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar, segir sambandssinna hafa afbakað ummæli Junckers og fer fram á afsökunarbeiðni.
Alex Salmond, forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar, segir sambandssinna hafa afbakað ummæli Junckers og fer fram á afsökunarbeiðni. Vísir/AFP
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hefur varað við að Skotar gætu þurft að standa utan Evrópusambandsins í nokkur ár, ákveði þeir að kjósa með sjálfstæði í fyrirhugaðri þjóðaratkvæðagreiðslu 18. september næstkomandi.

Skoskir sjálfstæðissinnar hafa sakað sambandssinna um að draga upp ranga mynd af Jean-Claude Juncker, verðandi forseta framkvæmdastjórnar ESB, og nýlegum ummælum hans um stækkunarstefnu sambandsins sem einnig vöktu athygli hér á landi. Juncker lýsti því yfir að fimm ára hlé yrði gert á frekari stækkun sambandsins.

Cameron sagði ummæli Juncker miklu skipta í kosningabaráttunni. Skoskir sjálfstæðissinnar eru hins vegar allt annað en ánægðir með Cameron og aðra sambandssinna og segja þá vísvitandi afbaka ummæli Junckers og að þau eigi ekki við í tilviki mögulegs sjálfstæðs ríkis Skota.

Á vef Telegraph segir að sjálfstæðissinnar hafi farið fram á afsökunarbeiðni eftir að talsmaður forseta framkvæmdastjórnarinnar sagði Juncker hafa átt við umsóknarríki utan ESB og ættu þau því ekki við um Skotland.

Alex Salmond, forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar og helsti leiðtogi sjálfstæðissinna, vill að Skotland fái flýtimeðferð og gerist þannig 29. aðildarríki ESB.

Telur hann að mögulegt sé að semja um ESB-aðild sjálfstæðs Skotlands á átján mánuðum frá atkvæðagreiðslunni í september og þar til að Skotland segði sig úr lögum við Bretland í mars 2016.


Tengdar fréttir

Össur segir ESB umsókn í fullu gildi

Össur Skarphéðinsson segir afstöðu Jean-Claude Juncker passa Íslendingum vel. Ný ríkisstjórn geti klárað aðildarviðræður innan fimm ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×