Erlent

Kúrdar mynda ný landamæri í Írak

Samúel Karl Ólason skrifar
Kúrdar hafa víggirt svæði sitt í norðurhluta Írak.
Kúrdar hafa víggirt svæði sitt í norðurhluta Írak. Mynd/AFP
Kúrdar í norðurhluta Írak virðast vinna að því að mynda ný landamæri í Írak, utan um umdeild landssvæði. Herskáir súnnítar hafa náð tökum á stórum landsvæðum í landinu sem og í Sýrlandi og vilja stofna Íslamskt ríki. Möguleg upplausn Íraks hefur valdið miklum áhyggjum að undanförnu.

AP fréttaveitan segir frá því að Kúrdar hafi sett upp vegatálma og girðingar til að verja sjálfstjórnarsvæði sitt, sem og svæði sem þeir tóku yfir í síðasta mánuði. Svæði sem íraski herinn hafði yfirgefið. Þar er með talin borgin Kirkuk, en þar er ein stærsta olíuvinnsla landsins.

Kúrdar sögðust hafa hernumið svæðin svo íslamistar næðu ekki tökum á þeim og segja landamærin vera til varnar gegn þeim. Um margra ára skeið hafa Kúrdar farið fram á aukið sjálfstæði.

„Þetta eru öryggisráðstafanir,“ segir embættismaður Kúrda. „Við erum að bregðast við mikilli ógn. Við erum nágrannar hryðjuverkaríkis og verðum að ganga úr skugga um öryggi okkar.“

Hinar nýju varnir gætu þó komið til með að mynda landamærin að nýju ríki Kúrda. Á endanum gæti það leitt til átaka við yfirvöld í Bagdad um Kirkurk, þar sem íbúarnir eru Kúrdar, Írakar og Tyrkir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×