Erlent

Eduard Shevardnadze látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Shevardnadze hrökklaðist frá völdum árið 2003.
Shevardnadze hrökklaðist frá völdum árið 2003. Vísir/AFP
Eduard Shevardnadze, fyrrum forseti Georgíu, lést í morgun 86 ára að aldri. Hann hafði átt við veikindi að stríða um nokkurt skeið. Shevardnadze tók við forsetaembættinu í Georgíu árið 1992 í kjölfar hruns Sovétríkjanna, en hrökklaðist frá völdum í Rósabyltingunni svokölluðu í nóvember 2003. Forsetinn var þá sakaður um kosningasvindl og spillingu. 

Shevardnadze fæddist í bænum Lanchkhuti 1928 og gekk til liðs við ungmennadeild sovéska Kommúnistaflokksins 1946. Hann varð leiðtogi flokksins í Georgíu árið 1972. Árið 1985 tók hann svo við embætti utanríkisráðherra Sovétríkjanna í stjórnartíð Mikhails Gorbatsjoffs og gegndi því til 1990.

Shevardnadze var síðasti utanríkisráðherra Sovétríkjanna og einn fjögurra manna í aðalsendinefnd sem kom hingað til lands með Gorbatsjoff vegna Reykjavíkurfundar hans og Ronalds Reagan Bandaríkjaforseta í Höfða í október 1986.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×