Erlent

Dæmdir til að slá gras eftir að hafa hópnauðgað stúlku

Stefán Ó. Jónsson skrifar
"Ég er Liz“ stendur á bol þessa mótmælanda.
"Ég er Liz“ stendur á bol þessa mótmælanda. VISIR/AFP
Hundruð mótmælenda í Keníu kröfðust í gær réttlætis fyrir stúlku sem var hrottalega hópnauðgað í júní í fyrra en ódæðismennirnir voru dæmdir til þess að slá gras í hegningarskyni.

Málið vakti mikla alþjóðlega athygli í fyrra og á aðra milljón manns skrifuðu undir áskorun til kenískra yfirvalda þar sem krafist var þyngri refsingar yfir mönnunum.

„Við erum hér saman komin til að krefjast réttlætis fyrir stelpurnar okkar,“ sagði Jennifer Lucheli, fimm barna móðir sem tók þátt í mótmælunum í gær skammt undan landamærum Úganda en tekið var að mótmæla að nýju í kjölfar endurupptöku málsins yfir einum sakborninganna.

Hinu sextán ára gamla fórnarlambi, sem er þekkt undir dulnefninu Liz, var nauðgað af sex mönnum síðastliðið sumar er hún var að labba heim úr jarðarför afa síns. Eftir árásina hentu mennirnir Liz í djúpan skurð, fullan af skólpi.

Hún hlaut margvíslega áverka, þeirra á meðal voru bakbrot og innvortis blæðingar.

Mál Liz komst í heimspressuna í kjölfar fyrrgreinds dómsúrskurðar þegar þremur mannanna sem áttu í hlut var gert að slá grasið í kringum lögreglustöð bæjarins í hegningarskyni.

Lögreglustjórinn David Kimaiyo dró vitnisburð Liz í efa í nóvember síðastliðnum en hann taldi of stuttan tíma hafa liðið á milli öskra hennar og þangað til þorpsbúar liðsinntu henni til að sex menn hefðu getað nauðgað Liz.

Mótmælendur hafa fengið sig fullsadda á vægum dómum í kynferðisbrotamálum sem þeir segja hafa verið langvarandi vandamál í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×