Erlent

Vopnahlé framlengt í Úkraínu til mánudags

Randver Kári Randversson skrifar
Petro Porosjenko, forseti Úkraínu.
Petro Porosjenko, forseti Úkraínu. Vísir/AFP
Vopnahlé milli úkraínskra stjórnvalda og aðskilnaðarsinna í austurhluta landsins hefur verið framlengt um þrjá daga. Petro Porosjenko, forseti Úkraínu, tilkynnti þetta eftir fund með æðstu embættismönnum á sviði öryggis- og varnarmála í Kænugarði.

Leiðtogar aðskilnaðarsinna funduðu einnig í gær með Leonid Kuchma, fyrrum forseta Úkraínu, og fulltrúum öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, og var því lýst yfir í kjölfarið að vopnahléið yrði virt fram að kvöldi hins 30. júní.

Í yfirlýsingu Porosjenkos er vísað til stefnuyfirlýsingar leiðtogaráðs Evrópusambandsins gagnvart Úkraínu þar sem kemur fram að fyrir mánudag skuli fara fram viðræður milli aðila um innleiðingu friðaráætlun Úkraínuforseta.

Áætlun Porosjenkos var sett fram þann 20. júní og gerir meðal annars ráð fyrir aukinni valddreifingu, og að þingkosningum verði flýtt. Einnig er lagt til að komið verði upp 10 km hlutlausu svæði á landamærum Rússlands og Úkraínu, og að aðskilnaðarsinnum verði gert kleift að yfirgefa átakasvæðin í austurhluta Úkraínu með öruggum hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×