Erlent

Bandaríkjamenn útiloka ekki hernaðaríhlutun í Írak

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/afp
Barack Obama Bandaríkjaforseti sagði á blaðamannafundi í kvöld að ekki væri hægt að útiloka hernaðaríhlutun í Írak, miðað við ástandið sem ríkir þar í dag og sagði að stöðva þurfi hryðjuverkahópa með öllum tiltækum ráðum.

Mikil átök hafa geisað í landinu undanfarið og hafa uppreisnarmenn úr samtökunum Íslamskt ríki í Írak og Austurlöndum nær, eða ISIS, á síðustu dögum náð borgunum Mosul og Tikrit á sitt vald. Borgirnar Ramadi og Falluja hafa verið á valdi þeirra frá ársbyrjun.  Talsmaður uppreisnarmannanna segir þá nú hafa tekið stefnuna á Bagdad, höfuðborg Íraks.

Obama sagði Bandaríkin hafa mikilla hagsmuna að gæta og því væri nauðsynlegt að koma í veg fyrir að öfgahópar herskárra Íslamista næðu varanlegri fótfestu í Írak og Sýrlandi.

Um tvær milljónir manna búa í borginni Mosul og hafa þegar hundruð flúið borgina af ótta við að verða fyrir barðinu á uppreisnarmönnunum. Neyðarástandi var lýst yfir á mánudag og fengu almennir borgara vopn og annan búnað til að berjast gegn mönnunum.  Á meðal þeirra sem hafa flúið borgina eru hermenn og lögreglumenn og sýndu öryggissveitir litla mótspyrnu, enda um ofurefli að ræða.

Þegar hafa bandarísk stjórnvöld veitt Írak 15 milljörðum bandaríkjadala í þjálfun hermanna, vopn og annan búnað.

Eins og sést á meðfylgjandi myndbandi er ástandið í Mosul mjög slæmt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×