Erlent

Vilja fjölga hermönnum og búnaði í Evrópu

Samúel Karl Ólason skrifar
Barack Obama er hér með Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands.
Barack Obama er hér með Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands. Vísir/AP
Bandaríkin stefna á að fjölga hermönnum og búnaði í Evrópu. Þetta sagði Barack Obama, forseti Bandaríkjanna á blaðamannafundi í Póllandi í dag. Áætlað er að kostnaður vegna þessa verði einn milljarður Bandaríkjadala.

Tilkynning forsetans markar töluverða breytingu, en síðustu tvo áratugi hafa Bandaríkin fækkað hermönnum í Evrópu og litið til Kyrrahafsins.

Verði tillaga Obama samþykkt af þingmönnum í Bandaríkjunum verður fjármagnið notað til að fjölga hermönnum og koma fyrir vopnum og búnaði í Evrópu. Auk þess verða fleiri sameiginlegar heræfingar haldnar.

Samkvæmt embættismönnum í Hvíta húsinu stefnir Obama einnig á að bandaríski flotinn taki meiri þátt í aðgerðum NATO í Svarta hafinu. Þá munu Bandaríkin einnig stuðla að eflingu herafla nágrannalanda Rússlands sem ekki eru aðilar að NATO, eins og Úkraínu, Georgíu og Moldóvu.

Obama mun hitta nýkjörinn forseta Úkraínu á morgun, Petro Poroshenko, en hann sagði í dag að hann vildi að Bandaríkin og Úkraínu ættu í góðu sambandi við Rússland. Þó sagði hann að Bandaríkin byggju yfir áætlunum til að vernda öll aðildarríki NATO. Hann kallaði eftir því að öll NATO-ríkin myndu hjálpa til við að auka sameiginlegt öryggi ríkjanna.



Bronislaw Komorowski, forseti Póllands, sagði á fundinum að stjórnvöld ætli að auka fjármagn til varna landsins um tvö prósent af heildarframleiðslu Póllands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×