Erlent

Einn féll í skotárás í skóla í Seattle

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AP
Fjórir einstaklingar urðu fyrir skotum í árás í skólanum Seattle Pacific University í kvöld. Búið er að koma þeim á spítala og árásarmaðurinn er í haldi lögreglu.

Samkvæmt Twittersíðu lögreglunnar í Seattle mun árásarmaðurinn hafa gengið inn í skólastofu og hafið skothríð. Á meðan hann var að hlaða byssu sína náðu starfsmenn skólans að yfirbuga hann.

Lögreglan leitaði um tíma að öðrum árásarmanni en því var hætt fljótlega. Sérsveitir lögreglunnar fóru þó byggingu úr byggingu og gengu úr skugga um að árásarmennirnir væru ekki fleiri.

Einn maður lést af sárum sínum á sjúkrahúsi og ein kona er enn í lífshættu. Þrír menn og ein kona voru færð á sjúkrahús en ekki er gert ráð fyrir því að fleiri hafi orðið fyrir skotum.

Rúmlega fjögur þúsund nemendur eru í skólanum og var öllum nemendum skólans skipað að halda sig á herbergjum sínum eða frá skólalóðinni. Nemendum og starfsfólki skólans var boðin áfallahjálp á skólalóðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×