Erlent

Gefa al-Sisi tvö ár til að umbylta efnahagnum

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Adbul Fattah al-Sisi sór í morgun embættiseið sem nýr forseti Egyptalands. al-Sisi heitir að færa Egyptum stöðugleika. Fréttaskýrendur telja að almenningur í Egyptlandi muni gefa nýjum forseta tvö ár til að rétt við efnahag landsins. Takist það ekki sé von á fjöldamótmælum.

Abdul Fattah al-Sisi er 59 ára gamall og er fyrrverandi yfirhershöfðingi Egyptalands. Hann tók þátt í valdaráni síðasta sumar þegar Mohammed Morsi, fyrsti lýðræðislega kjörni forseti Egyptalands, var steypt af forsetastóli. al-Sisi fékk tæp 97 prósent atkvæða í forsetakosningunum sem fram fóru í lok síðasta mánaðar.

Mikil öryggisgæsla var í Kaíró, höfuðborg Egyptalands, í dag þegar athöfnin fór fram. Átök hafa verið tíð í Egyptlandi frá því að gerð var uppreisn í landinu árið 2011 sem varð til þess að Hosni Mubarak hrökklaðist frá völdum eftir 30 ára valdasetu.

al-Sisi sagði í ræðu sinni í dag að hann ætli sér að bæta upp fyrir þau mistök sem fyrirrennarar hans hafa gert. „Við munum byggja upp sterkt lýðveldi sem verður sanngjarnt, öruggt og stöðugt. Lýðveldi sem trúir á þekkingu og vinnu,“ sagði al-Sisi meðal annars.

Mörg krefjandi verkefni bíða nýs forseta. Helst þykir balsa við vandamál í efnahagi Egyptalands. Mikill fátækt er í Egyptalandi en fjórðungur þjóðarinnar lifir undir fáttæktarmörkum. al-Sisi hefur heitið því að hefja mikla uppbyggingu ferðamannastaða í landinu og ætlar einnig að reisa átta flugvelli.

Egypska þjóðin er klofin í afstöðu sinni gagnvart al-Sisi að mati fréttaskýrenda sem segja að forsetinn verði að koma efnahagsmálum þjóðarinnar í lag innan tveggja ár. Ef ekki sé hætta á að til fjöldamótmæla komi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×