Erlent

Kjarnorkukafbátur bjargar smábát

Kristján Már Unnarsson skrifar
Kafbáturinn kominn upp að hlið smábátsins í Hvítahafi í gær.
Kafbáturinn kominn upp að hlið smábátsins í Hvítahafi í gær. Mynd/Norðurfloti Rússlands.
Fimm manns á vélarvana smábát, sem sent höfðu út neyðarkall í Hvítahafi við norðvesturströnd Rússlands í gær, urðu heldur en ekki lítið hissa þegar bjargvættir birtust óvænt beint fyrir framan nefið á þeim, - ekki af himnum ofan heldur neðan úr djúpinu. Illviðri og mikil ölduhæð höfðu seinkað svo för smábátsins að hann varð eldsneytislaus.

Björgunarmiðstöð í Arkangelsk heyrði neyðarkall bátsverja og lét tvö nærstödd skip vita og jafnframt var áhöfn Mi-8 björgunarþyrlu ræst út. Áhöfn kjarnorkukafbátsins „Voronezh“, sem var á æfingu í undirdjúpum Hvítahafs, reyndist hins vegar vera næst smábátnum, að sögn talsmanns norðurflota rússneska sjóhersins.

Aðeins 40 mínútum eftir að neyðarkallið  barst birtist risastór kafbáturinn óvænt upp úr kafinu beint fyrir framan 11 metra langan smábátinn. Fólkinu var bjargað yfir í kafbátinn og smábáturinn tekinn í tog. Og þetta var enginn smáræðis kafbátur, því þeir gerast ekki stærri á jörðinni, af tegundinni Oscar II, 155 metra langur og með 100 manna áhöfn. Kafbáturinn „Kursk“, sem fórst í Barentshafi árið 2000, var sömu gerðar.

155 metra langur kjarnorkukafbáturinn með 11 metra smábátinn við hlið sér.Mynd/Norðurfloti Rússlands.
Norski vefmiðilinn BarentsObserver greinir frá björguninni og hefur fréttina eftir rússneskum fréttastofum. Þetta er í annað sinn á tveimur árum sem kjarnorkukafbátar norðurflota Rússa bjarga sjómönnum í neyð. Í nóvember árið 2012 bjargaði kafbátur tveimur sjómönnum af litlum fiskibáti undan ströndum Kola-skaga. Meðfylgjandi myndir af björguninni eru frá norðurflota Rússlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×