Erlent

Segir Finna geta hafið þriðju heimsstyrjöldina

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Sergei Markov er ekki hrifinn af framgöngu Finna.
Sergei Markov er ekki hrifinn af framgöngu Finna.
„Vilja Finnar hefja þriðju heimstyrjöldina? Það er eitthvað sem Finnland ætti að hafa í huga ef þeir ætla sér að ganga í NATO,“ er haft eftir Sergei Markov, erindreka Vladimírs Pútín Rússlandsforseta.

Markov lét ummælin falla í samtali við hið finnska Hufvudstadsbladet en Norway today greinir frá þessu. Sergei Markov er prófessor í stjórnmálafræði við Moskvuháskóla og hann hefur sinnt mörgum trúnaðarstörfum fyrir rússnesk yfirvöld.

Í kjölfar deilnanna í Úkraínu hafa Finnar fært sig nær NATO og umræðan um hugsanlega aðild Finnlands að NATO hefur fengið byr undir báða vængi. Jyrki Katainen, forsætisráðherra landsins, hefur meðal annarra varpað fram hugmyndum um aðild Finnlands að NATO.

„Gyðingaandúð hóf seinni heimstyrjöldina, óþol fyrir Rússum gæti vel orðið kveikjan að þeirri þriðju,“ sagði Markov. „Finnar eru ein þeirra þjóða sem hefur hvað mesta andúð á Rússum, ef frá eru taldir Svíar og þjóðir á Balkanskaganum.“ Markov bætti við að honum þætti „Rússahræðslan“ í finnskum fjölmiðlum forkastanleg og að hann væri hættur að lesa finnska miðla af þeim sökum.



Dró hann þá ályktun að þessi áróður gegn Rússlandi gæti jafnvel orðið til þess að Rússar myndu sjá sig tilneydda til að auka ítök sín í fyrrgreindum löndum, Finnlandi þar á meðal. Hann sagði einnig í samtali við finnska blaðið að honum þætti líklegt að austurhluti Úkraínu, Donetsk, Luhansk, Charkiv, Odessa, Dnipropetrovsk og  Zaporozjie þar meðtalin, myndi skilja sig frá vesturhluta landsins og sameinast undir merkjum Novorossiya, eða Nýja Rússlands sem áður var landsvæði norðan Krímskaga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×