Erlent

Réttað yfir Blackwater málaliðum eftir sjö ára bið

Samúel Karl Ólason skrifar
Blackwater málaliðar eru sagðir hafa skotið á hóp borgara á Nisoor torgi í Bagdad árið 2007.
Blackwater málaliðar eru sagðir hafa skotið á hóp borgara á Nisoor torgi í Bagdad árið 2007. Vísir/AFP
Eftir nærri því sjö ára tafir eru réttarhöld að hefjast yfir fjórum fyrrverandi starfsmönnum Blackwater að hefjast. Þeir eru sakaðir um að hafa myrt 14 íraska borgara og særa 18 til viðbótar, í ódæði sem mótmælt var víða um heim.

Skotárásin átti sér stað þann 16. september árið 2007. Mennirnir segjast hafa skotið í sjálfsvörn en saksóknarar segja árásina hafa verið tilefnislausa. Starfsmenn sendiráðs Bandaríkjanna voru í fylgd Blackwater málaliða þegar þeir munu hafa skotið á fjölda borgara og einnig lögreglumann.

Saksóknarar stefna á að láta tugi Íraka bera vitni en dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna segir þetta stefna í stærsta hóp erlendra vitna sem taki þátt í dómsmáli þar í landi, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Lögmenn málaliðanna munu einbeita sér að hugarástandi mannanna, en bílasprengjur og skotárásir voru daglegt brauð í þeirra starfi. Samkvæmt málsskjölum munu lögmennirnir reyna að sýna fram á að málaliðarnir hafi talið líf sitt í hættu. Þá segja þeir að ekki eiga að dæma um aðstæður á Nisoor torgi, í dómsal, sjö árum seinna og þúsundir kílómetra í burtu.

Blackwater sendi frá sér myndir af bíl mannanna sem sýndu skotgöt.

Vísir/AFP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×