Erlent

Feðgar handteknir fyrir að ræna pissuskálum

Þetta er bíll feðganna.
Þetta er bíll feðganna.
Feðgar frá Alabama í Bandaríkjunum hafa verið handteknir fyrir að stela miklum fjölda pissuskála og örðum búnaði af salernum í heimaborg þeirra, Birmingham. Lögreglan í Birmingham hafði rannsakað þjófnað á klósettum borgarinnar og komst á spor ræningjanna eftir að það spurðist út að maður væri að selja hluta úr klósettum og pissuskálum.

Feðgarnir voru handteknir á bensínstöð og er annar feðganna pípari. „Hann notaði þekkingu sína á þennan glæpsamlega hátt,“ útskýrir Sean Edvards, yfirmaður hjá lögreglunni í Birmingham. Feðgarnir skrúfuðu klósett og pissuskálar af veggjum og numu á brott úr fjölda veitingastaða í borginni.

„Sem betur fer eru þessir klósettþjófar úr sögunni núna,“ segir eigandi eins veitingarstaðar sem feðgarnir rændu. Hann þurfti að punga út nokkur hundruð þúsundum króna til þess að gera við salernið á veitingastaðnum, eftir að feðgarnir höfðu á brott pissuskál og vask. „Ég skil ekki hvað vakir fyrir þessum mönnum,“ bætir hann við.

Lögreglumaðurinn Edwards segir að sér þyki þessi þjófnaður afar skrýtinn og bendir á að notaðar pissuskálar og notuð klósett séu ekkert sérstaklega mikils virði. Lögreglan vinnur nú að því að tengja feðgana við þjófnað á salernisgræjum í Forestdale, sem er í tíu kílómetra fjarlægð frá Birmingham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×