Innlent

Bíll frá Ísafirði tekur við pökkum á Suðureyri

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Suðureyri.
Suðureyri.
Íbúar á Suðureyri þurfa ekki að keyra á Ísafjörð til þess að póstleggja pakka. Póstbíll kemur frá Ísafirði daglega og geta íbúar á Suðureyri nýtt sér. Þetta kemur fram í ábendingu Hrannar Óskarsdóttur, sem er almannatengill Póstsins.

Fyrr í mánuðinum birti Vísir frétt um breytingar á póstþjónustunni á Suðureyri. Áður gátu íbúar þar póstlagt pakka í banka þorpsins, en þann fyrsta maí var sú þjónusta lögð niður. Í staðinn kemur póstbíll einu sinni á dag frá Ísafirði og tekur við pakkasendingum.

Þetta er hér með leiðrétt.

Hér er ábending Hrannar í heild sinni:

Þann 7. maí síðastliðinn birtist grein á Visir sem nefnist „Bæjarstjóri styður við bakið á nýjum bréfbera“. Í greininni er meðal annars fjallað um þær breytingar sem hafa orðið á póstþjónustu á Suðureyri. Þar kemur fram að íbúar á Suðureyri þurfi að keyra til Ísafjarðar til að póstleggja og ná í pakkasendingar. Pósturinn vill leiðrétta þennan misskilning og koma því á framfæri að póstbíllinn sem þjónar Suðureyri bæði tekur við og kemur pakkasendingum til skila.

Póstbílar tóku við dreifingu á pósti til einstaklinga og fyrirtækja á Suðureyri og Þingeyri þann 1. maí síðastliðinn. Bílarnir eru staddir á Þingeyri frá kl 11:00 til 13:00 og á Suðureyri frá kl 13:30 til 15:30 alla virka daga. Hægt er að hafa samband við þjónustuver í síma 580 1200 til að koma sendingum til póstbílanna, eða óska eftir að fá sendingu afhenta. Einnig er hægt að hringja beint í bílana, símanúmer er 825 1422 fyrir bílinn á Suðureyri en 825 1477 fyrir Þingeyri. Greiðsluposi er í bílunum, en einnig er hægt að vera í reikningsviðskiptum hjá Póstinum. Sú þjónusta hentar vel fyrirtækjum, félagasamtökum og öðrum aðilum sem senda póst frá sér reglulega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×