Erlent

Nýr forseti Úkraínu tilbúinn til viðræðna við Rússland

Samúel Karl Ólason skrifar
Mikinn reyk bar frá flugvellinum í Dónetsk.
Mikinn reyk bar frá flugvellinum í Dónetsk. Vísir/AP
Nýkjörinn forseti Úkraínu, Petro Poroshenko, segist tilbúinn til viðræðna við yfirvöld í Moskvu til að binda endi á átökin í austurhluta landsins. Hann lýsti þó aðskilnaðarsinnunum sem sómölskum sjóræningjum og yfirvöld í Kænugarði gerðu í gær loftárásir á flugvöll í Dónetsk, sem var í höndum aðskilnaðarsinna.

Loftárásirnar eru sýnilegasta aðgerð hers Úkraínu gegn aðskilnaðarsinnunum síðan herinn byrjaði að þrengja að þeim í síðasta mánuði.

AP fréttaveitan segir frá því að í Dónetsk hafi sprengingar heyrst frá flugvellinum og þotum og þyrlum hafi verið flogið yfir borgina.

Talsmaður aðgerðanna gegn aðskilnaðarsinnunum skrifaði á Facebooksíðu sína í gær að herinn hafi gefið aðskilnaðarsinnunum þann úrslitakost að leggja niður vopn sín. Því hafi verið hafnað og loftárásirnar gerðar í kjölfarið.

Þá sá blaðamaður AP bílum ekið á flugvöllin og í þeim fjölmarga vopnaða menn. Einn leiðtogi aðskilnaðarsinnanna í Donetsk sagði þá hafa verið senda á flugvöllinn eftir að stuðningsmenn þeirra hafi verið handsamaðir af hernum.

Karlmaður breiðir hér yfir lík konu sem féll vegna sprengjubrota í loftárás stjórnvalda í Úkraínu.Vísir/AP
Poroshenko sagði í gær að hernaðgerðirnar í austurhluta Úkraínu mættu ekki standa yfir í tvo til þrjá mánuði. „Þær ættu að, og munu, standa yfir í nokkra klukkutíma.“

Hann fór einnig ófögrum orðum um aðskilnaðarsinna í Dobass héraði Úkraínu.

„Markmið þeirra er að gera Donbass að Sómalíu, þar sem þeir stjórna með vélbyssum sínum. Ég mun ekki leyfa því að gerast innan Úkraínu,“ sagði Prorshenko og bætti við að hann vonaðist til að stjórnvöld í Rússlandi muni styðja hann í þeirri viðleitni að koma jafnvægi á austurhluta landsins.

„Við erum tilbúnir til viðræðna við fulltrúa Kænugarðs og Petro Poroshenko,“ sagði Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. Hann bætti því við að þetta væri tækifæri sem yrði að nýta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×