Erlent

Edward Snowden: „Ég var þjálfaður sem njósnari“

Randver Kári Randversson skrifar
Edward Snowden dvelur nú í Rússlandi.
Edward Snowden dvelur nú í Rússlandi. Mynd/AFP
Edward Snowden segist í viðtali við fréttastofu NBC hafa verið þjálfaður sem njósnari, en ekki einungis sem tæknilegur sérfræðingur.

„Ég var þjálfaður sem njósnari, í hefðbundnum skilningi þess orðs, þar sem ég bjó erlendis og starfaði sem leynilegur útsendari og þóttist starfa við eitthvað sem ég gerði ekki, og jafnvel undir fölsku nafni,“ segir Snowden í viðtali sem tekið var upp í Rússlandi í síðustu viku.

Snowden er eftirlýstur af bandarískum stjórnvöldum fyrir njósnastarfsemi, eftir að hafa lekið gögnum um persónunjósnir Bandarísku þjóðaröryggisstofnunarinnar, NSA, í maí á síðasta ári. Hann fékk pólitískt hæli í Rússlandi í ágúst á síðasta ári og dvelur nú þar í landi.

Hann segir bandarísk stjórnvöld reyna að grafa undan trúverðugleika sínum, með því að gera lítið úr starfsreynslu sinni. „Ég er tæknilegur sérfræðingur. Ég vinn ekki með fólki. Ég afla ekki nýrra njósnara. Það sem ég geri er að ég fæ tölvukerfi til að vinna fyrir Bandaríkin. Það hef ég gert á öllum stigum, allt frá botninum til æðstu stiga.“

Hann segir að umfangsmikil reynsla sín hjá bandarískum öryggisstofnunum sýni að hann hafi verið meira en lágt settur tölvusérfræðingur. „Ég kom upp tengslaneti og þróaði aðferðir til að halda okkar upplýsingum og okkar fólki öruggu á fjandsamlegustu og hættulegustu stöðum í heimi“, segir Snowden.

Viðtalið í heild sinni verður frumflutt í kvöld, en hér fyrir neðan má sjá brot úr því. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×