Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Keflavík - KR 0-1 | Fyrsta tap Keflavíkur

Árni Jóhannsson á Nettó-vellinum skrifar
Keflvíkingar ekki lengur taplausir en þó með níu stig eftir fjóra leiki.
Keflvíkingar ekki lengur taplausir en þó með níu stig eftir fjóra leiki. Vísir/Daníel
KR stöðvaði sigurgöngu Keflavíkur í Pepsi-deild karla í kvöld en KR-ingar höfðu sigur á Nettó-vellinum í Reykjanesbæ, 1-0.

Óskar Örn Hauksson skoraði eina mark leiksins fyrir gestina úr vesturbæ Reykjavíkur á 89. mínútu eftir sendingu frá Norðmanninum IvariFuru.

Keflavík var fyrir leikinn búið að vinna fyrstu þrjá leiki sína í deildinni en er nú með níu stig eftir eftir fjórar umferðir. KR er með sex stig eftir jafnmarga leiki.

Fyrri hálfleikurinn í leik Keflavíkur og KR var ekki mikið fyrir augað. Bæði lið voru af öllum vilja gerð til að spila góðan fótbolta en oftar en ekki var það seinasta sending liðanna var oftar en ekki að klikka. Hann var rispukenndur hálfleikurinn, heimamenn byrjuðu á því að vera meira með boltann og tók KR við eftir um tíu mínútna leik og svo koll af kolli þangað til að flautað var til hálfleiks.

Keflavík átti betri færi í fyrri hálfleik, fyrst á 18. mínútu þegar Elías Már Ómarsson átti skalla naumlega yfir markið. Elía var svo aftur á ferðinni með bylmingsskot á 25. mínútu en boltinn sveif hátt yfir.

KR-ingar fengu sitt besta færi á 34. mínútu en Óskar Örn Hauksson átti þá flotta fyrirgjöf utan af vinstri kanti úr aukaspyrnu sem fann ennið á Baldri Sigurðssyni sem var nánast óvaldaður í teignum. Skalli hans var fastur en Jonas Sandqvist var vel staðsettur og handsamaði boltann.

Lokamínútur hálfleiksins voru í eigu KR sem gerðu sig líklega og voru meira með boltann en það vantaði loka afurðina og var því markalaust þegar Erlendur Eiríksson, dómari leiksins, flautaði til hálfleiks.

Gestirnir í KR voru betri aðilinn framan af seinni hálfleik, sem var heldur líflegri en sá fyrri. Þeir náðu hinsvegar ekki að brjóta niður varnarmúr Keflvíkinga sem virkuðu mjög skipulagðir í varnaraðgerðum sínum. Þeir fengu fín færi til að setja mark en Sandqvist, markvörður og varnarmenn heimamanna gerðu þeim erfitt fyrir.

Þegar um 15 mínútur lifðu eftir af leiknum tóku Keflvíkingar við sér og voru meira með boltann og sköpuðu sér ákjósanleg marktækifæri en virtust ekki finna miðið sitt auk þess sem Stefán Logi varði stórkostlega frá Herði Sveinssyni sem var nærrum því búinn að skora með sinni fyrstu snertingu.

Það var svo á 89. mínútu sem KR-ingar tryggðu sér stigin þrjú þegar Ivar Furu fékk þversendingu yfir á vinstri kantinn og sendi hann boltann inn í teig heimamanna. Þar var Óskar Örn Hauksson sem náði að leggja boltann á vinstri löpp sína og skjóta boltanum milli varnarmanna Keflavíkur þannig að Sandqvist sá boltann ekki fyrr en boltinn söng í neti heimamanna. Keflvíkingar fengu tvö góð færi í uppbótartíma en náðu ekki að nýta þau til að bjarga allavega stigi.

Þetta var fyrsta tap heimamanna en það er mál manna að jafntefli hefði getað verið sanngjarnt. KR-ingar geta hinsvegar verið mjög ánægðir með annan sigur sinn í deildinni en það eru mörkin sem vinna leikina og gestirnir úr Vesturbænum skoruðu eitt mark á Nettó-vellinum í dag og dugði það til sigurs í dag.

Óskar Örn Hauksson: Við erum mættir

Óskar Örn Hauksson, hetja KR-inga í dag, var að vonum ánægður með úrslitin í Keflavík í dag. „Ég er gríðarlega ánægður með sigurinn. Við urðum í raun og veru að vinna þennan leik í dag. Þetta hefur verið hálfdöpur byrjun á mótinu og úr því sem komið var ákváðum við fyrir leik að mótið myndi byrja hjá okkur í dag. Við erum mættir.“

„Þetta var samt erfið fæðing, mér fannst við nú liggja dálítið á þeim heilt yfir en þurftum að leita lengi að þessu marki. Þetta leit ekki vel en sem betur fer datt þett í lokin fyrir okkur og er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur.“

Eins og menn ættu að vita þá er Óskar Njarðvíkingur að upplagi og hann var spurður hvort það væri ekki sætt að strá salt í sár Keflvíkinga. „Þetta bara spurning um að vinna leikinn, það skiptir ekki máli hvort þetta er Keflavík eða eitthvað annað lið. Keflavík er toppliðið í dag og eru búnir að spila vel en eins og ég sagði þá erum við mættir til leiks.“

Rúnar Kristinsson: Ef eitthvað lið átti að vinna leikinn þá vorum það við

„Frábær sigur, við komum hingað vitandi það að Keflavík er með bullandi sjálfstraust og búnir að vinna fyrstu leikina sína og voru verðskuldað á toppnum. Við sýndum þeim virðingu og fórum varlega út í þennan leik, vitandi það að þeir eru gríðarlega sterkir og unnu góðan sigur í síðasta leik. Við vissum að við þurftum að spila okkar allra besta leik í dag, fótboltinn var kannski ekki sérstaklega fallegur í dag en baráttan var til staðar hjá báðum liðum. Aðstæðurnar voru líka erfiðar með mikinn vind á annað markið og þess vegna var þetta erfitt fyrir bæði lið. Baráttan sem bæði lið sýndu bar vitni um það að þetta eru lið sem vilja mikið“, sagði þjálfari KR um sigur sinna manna í dag.

Rúnar var spurður hvort honum hafi fundist sínir menn vera lengi í gang í dag. „Mér fannst við byrja betur en þeir og fannst við liggja á þeim í síðari hálfleik en þeir komust samt í einhverjar skyndisóknir. Heilt yfir fannst mér að ef eitthvað lið átti að vinna leikinn þá vorum það við. Jafntefli hefði verið sanngjörn úrslit samt sem áður.“

Um byrjun Íslandsmeistaranna sagði Rúnar: „Stigalega séð hefur þetta verið aðeins undir því sem við vonuðumst eftir en við verðum bara að sætta okkur við það og halda áfram. Við stigum stórt skref í dag með því að leggja toppliðið af velli og við verðum að halda áfram að hafa fyrir hlutunum. Mínir menn voru gríðarlega duglegir dag og börðust mikið líkt og Keflavíkur liðið. Við hinsvegar drógum lengsta hálmstráið í restina.“

Haraldur Freyr Guðmundsson: Hrikalega fúlt að tapa þessum leik

„Já það er gríðarlega svekkjandi og hrikalega fúlt að tapa þessum leik“, sagði dapur Haraldur Freyr, fyrirliði Keflavíkur eftir leik sinna manna á móti KR í kvöld. „Mér fannst að jafntefli hefðu verið sanngjörn úrslit og mjög svekkjandi að fá á sig mark í restina. Við erum í sókn og þeir ná hraðaupphlaupi og fyrirgjöf sem við náum ekki að hreinsa og Óskar þrýstir honum inn með vinstri.“

Haraldur var með nýjan félaga í hjarta varnarinnar en Harldur Kristinn Halldórsson var með ælupest og gat ekki spilað. Unnar Már Unnarsson, tvítugur strákur, spilaði sinn fyrsta leik í efstu deild í kvöld. „Mér fannst hann spila hrikalega vel og koma vel inn í þetta. Hann spilaði bara frábærlega.“

Það er skammt stórra högga á milli en FH kemur í heimsókn til Keflavíkur á fimmtudaginn og var Haraldur spurður að því hvernig sá leikur legðist í hann. „Það leggst vel í mig, við fáum að vera svekktir í kvöld en svo koma FH-ingar í heimsókn og við tökum bara þrjú stig þar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×