Innlent

Kirkjuklukkur Hallgrímskirkju rugla íbúa í ríminu

Jakob Bjarnar skrifar
Högni hefur verið að fikta í klukkuspilinu í Hallgrímskirkjuturni.
Högni hefur verið að fikta í klukkuspilinu í Hallgrímskirkjuturni.
Kirkjuklukkurnar í Hallgrímskirkju hafa hljómað undanfarin tvö kvöld án þess að hægt sé að tengja það neinu sérstöku. Vísi hefur borist ábendingar þessa efnis; íbúar í Þingholtum og miðborginni hafa fengið að heyra í klukkunum án þess að þær hringi á heilum tíma eða nokkur kirkjuleg athöfn sé í gangi sem hægt er að rekja þetta til. Við eftirgrennslan hefur komið á daginn að þarna var tónlistarmaðurinn Högni Egilsson ásamt hjálparkokkum á ferð, að fikta í klukkuverkinu.

Hreiðar Ingi Þorsteinsson er kirkjuvörður í Hallgrímskirkju. Hann segir að þetta sé vegna opnunar verks Högna á Listahátíð, sem flutt verður 22. maí en þá verður klukkum í Hallgrímskirkju sem og Landakotskirkju hringt sem þáttur í verkinu sem flutt verður við tjörnina. „Þeir voru að þreifa sig áfram með þetta. Ég hef aldrei heyrt annað eins hljóð í klukkunum,“ segir Hreiðar Ingi sem vona að þetta hafi ekki trufla íbúana um of.

Hreiðar Ingi segir þetta miklar klukkur og mætti að hans mati vinna miklu meira með þær. Því miður eru stóru klukkurnar bilaðar, þar með talinn Stóri Hallgrímur, en þær eru fimm. Aðeins ein þeirra hljómar þegar boðað er til messu. Það þarf gríðarlega mikið afl til að hringja þeim og stendur til að lagfæra þær. Klukkuspilið sjálft er svo allt annað mál, sem samanstendur af minni klukkum. „Nú er sem allt í einu opnist möguleikar á að vinna með klukkurnar með þessu verki. Á sama tíma hefur komið til miditona, sem er nýjasta tækni, og þá geta klukkurnar spilað hvað sem er – það flæðir í gegnum kerfið. Mjög sérstakt,“ segir Hreiðar Ingi.

Og þá er að sjá, eða öllu heldur heyra, hvort kirkjuklukkurnar í Hallgrímskirkju fara ekki að setja aukinn svip á Reykjavík með miklum hljóm sínum.

Að neðan má sjá myndband sem lesandi Vísis tók af klukkuspilinu í gærkvöldi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×