Innlent

Nefndi son sinn Gamla

Birta Björnsdóttir skrifar
Margir nemenda í 8. bekk í Rimaskóla eiga að baki afar svefnlitla helgi. Fjörugu félagslífi eða sjónvarpsáhorfi er þó ekki um að kenna, heldur eru sökudólgarnir litlar dúkkur sem forritaðar eru til að líkja eftir ungabörnum í einu og öllu.

Nemendurnir þurftu að sinna foreldrahlutverkinu alla helgina með þessum forrituðu dúkkum, sem, líkt og alvöru ungabörn, þurfa ást og umhyggju, mjólk að drekka og þurra bleyju. Verkefnið er hluti af kynfræðsluáfanga í Rimaskóla.

„Ég er búin að vera með þetta verkefni í 10 ár og mér finnst að þetta ætti að vera skyldu áfangi í öllum skólum. Þarna fá þau að kynnast þessu að eigin raun, að vera foreldrar.  Að það sé allt í einu einstaklingur sem þarf að setja framar sínum eigin þörfum," segir Jónína Ómarsdóttir, kennari.

„Ég vil að þau haldi í barnæskuna sem lengst. Að þau bíði með að stunda kynlíf. En þegar kemur að því er mikilvægt að þau verði ábyrg í hegðun."

Jónína segir að ekki sé síður um jafnréttismál að ræða.

„Við viljum auðvitað að strákarnir okkar taki jafnan þátt í uppeldi barna og stelpurnar. Nú hafa þeir um helgina verið einstæðir feður með enga pössun."

Þó flestir væru fegnir að skila helgarbörnunum sínum sögðust mörg eiga eftir að sakna þeirra örlítið.

Börnin fengu að sjálfsögðu nöfn hjá foreldrum sínum, Aðalgeir ákvað til dæmis að láta son sinn heita Gamla, eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði.

Og dúkkurnar góðu virka ekki bara sem forvörn fyrir börnin.

„Foreldrar nemenda minna eru mörg hver svo ung, fólk sem jafnvel er enn að íhuga að eignast annað barn. Ég hef heyrt frá þónokkrum foreldrum að þau hafi snarhætt við þau áform eftir eina helgi með dúkkunni," segir Jónína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×