Erlent

Mikil reiði vegna týndu skólastúlknanna

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Barack Obama Bandaríkjaforseti og David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, segjast ætla að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að finna skólastúlkurnar tvö hundruð sem hryðjuverkasamtökin Boko Haram rændu í norðurhluta Nígeríu fyrir um mánuði síðan. 

Stúlkunum var rænt í bænum Chibok í norðausturhluta Nígeríu fjórtánda apríl síðastliðinn og ellefu til viðbótar voru teknar um helgina. Þær eru flestar á aldrinum tólf til sextán ára.

Á mánudaginn sendi Abubakar Shekau, leiðtogi hryðjuverkasamtakanna, frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagði að samtökin væri á móti vestrænni menntun og að stúlkurnar yrðu seldar mansali.

Lögregluyfirvöld í Nígeríu buðu í dag um þrjátíu milljóna króna verðlaunafé þeim sem geta gefið upplýsingar um hvar stúlkurnar eru niðurkomnar.

Málið hefur vakið mikla reiði í alþjóðasamfélaginu, en hverfandi líkur eru á að þær finnist. David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hét því í dag að aðstoða yfirvöld í Nígeríu eftir fremsta megni við að koma stúlkunum heim.

Þá tilkynnti Barack Obama Bandaríkjaforseti í gær að bandarískir sérfræðingar verði sendir til Nígeríu á næstu dögum til að aðstoða við leitina. Obama sagðist vonast til að mannránin herði alþjóðasamfélagið í baráttunni gegn Boko Haram ofstatrúarsamtökunum, en þau hafa vaðið uppi í Nígeríu síðustu ár með átökum sem hafa kostað þúsundir íbúa lífið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×