Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl, einkunnir og myndir: Fjölnir - Valur 1-1 | Jafnt í kuldanum í Grafarvogi

Guðmundur Marinó Ingvarsson á Fjölnisvelli skrifar
Fjalar með frábæra markvörslu í kvöld.
Fjalar með frábæra markvörslu í kvöld. vísir/daníel
Fjölnir og Valur skildu jöfn 1-1 í Grafarvogi í fyrsta leik þriðju umferðar Pepsí deildar karla í fótbolta í kvöld. Bæði mörkin voru skoruð seint í seinni hálfleik.

Það var kalt í Grafarvogi og afskaplega fátt um fína drætti framan af leik. Valur beitti  löngum sendingum fram völlinn og í fyrri hálfleik fékk liðið aðeins færi eftir föst leikatriði.

Ekki gekk mikið betur hjá Fjölni en heimamenn reyndu að halda boltanum á jörðinni. Aron Sigurðarson slapp þó inn fyrir vörn Vals seint í fyrri hálfleik og hefði átt að skora, Þórir Guðjónsson fylgdi eftir og fékk enn betra færi en setti boltann yfir markið.

Fátt annað markvert gerðist í fyrri hálfleik og var marklaust í hálfleik.

Meira fjör var strax í  upphafi seinni hálfleiks. Valur hélt áfram að dæla boltanum fram en var mun beinskeyttara í sínum aðgerðum og fékk dauðafæri sem Þórður varði vel áður en Fjölnir vildi fá vítaspyrnu eftir um klukkutíma leik en brotið var fært út fyrir teig af öðru leyti góðum dómara leiksins.

Leikurinn opnaðist er leið á seinni hálfleikinn og þá sérstaklega eftir að Kolbeinn Kárason kom Val yfir þegar tólf mínútur voru til leiksloka.

Fjölnir hafði tíma til að jafna og fékk dauðafæri til að tryggja sér sigurinn og eftir afskaplega dapran leik framan af vildu allir sem á horfðu að leikurinn hefði haldið lengur áfram því leikmenn náðu að skemmta áhorfendum í seinni hálfleik.

Magnús: Sköpum nóg af færum til að vinna leikinn„Það var gríðarlega svekkjandi að missa þetta niður. Við lögðum allan þennan dugnað og kraft í leikinn á móti golunni og það þurfti svolítið til að spila boltanum, skapa okkur þessi færi og komast yfir,“ sagði Magnús Gylfason þjálfari Vals.

„Ég hélt við gætum haldið þessu með að halda sama leik en svo datt einn bolti fyrir þá og svona er fótboltinn. Við erum að berjast við það allan leikinn að það detti fyrir okkur bolti í teignum en svo þurftu þeir bara einn.

„Við vorum að spila okkar fyrsta grasleik og mér fannst við ráða illa við að láta boltann ganga. Við vorum að reyna og fengum eitthvað smá af færum í fyrri hálfleik en það var ekki nóg. Heilt yfir fannst mér þessi leikur ágætlega spilaður af okkar hálfu, sérstaklega seinni hálfleikurinn.

„Við sköpuðum nóg af færum til að vinna leikinn en enn og aftur tókst það ekki, við gerðum það líka á móti Keflavík, það tókst ekki heldur þar og er vissulega áhyggjuefni,“ sagði Magnús.

Valur er með fjögur stig eftir þrjá fyrstu leikina og auðvitað hefði Magnús viljað vera með fleiri stig.

„Það er alltaf þannig, við hefðum helst viljað vera með 9 stig en við spiluðum að mínu viti ágætlega og við verðum að halda því áfram og ekkert að hengja haus. Auðvitað eru þetta leiðinleg úrslit að vinna ekki þegar þú ert betri aðilinn og skapar þér fleiri færi.

„Við berum auðvitað virðingu fyrir toppliðinu, við vorum að spila við topplið,“ sagði Magnús.

Ágúst: Hefðum getað klárað þetta„Þetta var hörkuleikur tveggja góðra liða. Ég er mjög sáttur við stigið á móti þeim,“ sagði Ágúst Gylfason þjálfari Fjölnis.

„Við fengum besta færið í fyrri hálfleik eftir jafnræði. Við komum agaðir líka í seinni hálfleik og sköpuðum okkur bestu færin.

„Þeir komast yfir og þá gerðum við sóknarbreytingu og uppskárum fljótlega mark. Svo var þetta vítateiga á milli í lokin og hefðum alveg getað klárað þetta.

„Þeir eru  með mjög hraða leikmenn sem við vildum loka á og það tókst mjög vel. Leikurinn opnaðist í lokin og það var mikil spenna,“ sagði Ágúst sem er mjög ánægður með uppskeruna eftir þrjá fyrstu leikina, sjö stig af níu mögulegum.

„Við erum mjög sáttir við sjö stig og að vera taplausir. Við höldum áfram og fáum kærkomið viku frí núna. Það er búið að vera mikið álag á okkur en við sýndum að við erum með stóran og breiðan hóp.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×