Erlent

Sjómaður fann gervityppi í maga þorsks

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Norski miðillinn TV2 fjallaði um málið.
Norski miðillinn TV2 fjallaði um málið. Vísir/skjáskot
Norski trillusjómaðurinn Björn Frilund dró á land mjög sérstakan afla. Í maga þorsks sem hann veiddi á mánudaginn fannst svokallað gervityppi. Björn sem er 64 ára gamall hefur stundar veiðar af áhugamennsku.

Hann tók strax eftir einhverju sérstöku við einn þorskinn sem hann hafði veitt í net sitt.

„Ég sá að hann var eitthvað skrýtinn í laginu – með einhverja kúlu á maganum. Þegar ég slægði þorskinn kom í ljós risastór gervilimur,“ segir Björn í samtali við norska miðilinn TV2.

Björn var við veiðar ásamt syni sínum – sem smellti strax mynd af limnum og setti á Facebook.

Grunar nágranna í norðri

Björn segist gruna að gervilimnum hafi verið hent í sjóinn af fólki sem býr í norðurhluta Noregs, eða þá að limurinn hafi verið í eign ferðamanna. Þorskurinn hafi svo gleypt liminn fyrir mistök, jafnvel haldið að hann væri einhverskonar sjávardýr.

Í limnum var rafhlöðuknúinn mótor, sem Björn segir ónýtan. Enda hafi hann líklega verið dágóðan tíma í sjónum.  

Trúlegra en að geimskip lendi í garðinum

Björn segist ánægður að hafa myndað innihaldið í maga þorskins. Annars hefðu vinir og vandamenn líklega ekki trúað honum. „Ef ég hefði ekki tekið myndina hefði verið auðveldara að trúa mér ekki. Vinir mínir hefðu líklega frekar trúað því að geimskip hefði lent fyrir utan húsið mitt.“

Björn ætlar sér að eiga gerviliminn en hefur flakað þorskinn og gefið hann.

„Þorskurinn var nefnilega feitur og fínn,“ útskýrir hann að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×