Innlent

Hreinsuðu aðeins hluta hrossaskítsins

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
„Þetta eru örugglega einverjir guttar, mjög í óþökk skólans þar innfrá, sem voru eitthvað að vekja athygli á sér,“ segir Magnús Þorláksson, skólastjóri við Flensborgarskólann í Hafnarfirði.

Magnús, kollegar hans í kennarastéttinni og nemendur Flensborgarskólans vöknuðu upp við vondan draum þegar þau mættu til leiks í morgun. Búið var að moka hrossaskít fyrir aðalinngang skólans.

„Þeir virðast hafa verið teknir við aðalanddyrið. Nemendur okkar horfa upp á lögguna taka þá þar,“ segir Magnús.

Í tilkynningu frá lögreglu í morgun kom fram að drengirnir hefðu verið fjórir, 17 ára gamlir. Voru þeir að aka á brott þegar lögreglan hafði hendur í hári þeirra. Voru þeir látnir hreinsa upp eftir sig við anddyrið, svo var þeim ekið á brott og haft samband við foreldra þeirra. Þeir verði kærðir fyrir brot á lögreglusamþykkt Hafnarfjarðar.

Magnús bendir á að viðkomandi nemendur, sem séu að öllum líkindum úr Menntaskólanum í Sund, hafi þrifið upp skítinn við anddyrið sjálfir. MS og Flensborg mætast í úrslitum Morfís, ræðukeppni framhaldsskólanna, í kvöld.

Þar með var þó ekki öll sagan sögð. Í ljós hafi komið að einnig var búið að moka skít fyrir eina af innkeyrslum skólans.

„Það olli ákveðnu uppnámi,“ segir Magnús og bendir á að nokkurt umferðaröngþveiti hafi skapast. Bílalest hafi verið upp Hringbrautina. Fór starfsfólk skólans sjálft í að moka skítinn til þess að bjarga málunum.

Magnús segir að sér þyki verst að draga megi þá ályktun af fjölmiðlaumfjöllun að um nemendur í Flesborg sé að ræða. Svo sé alls ekki. Þá hefur Magnús ekki áhyggjur af því að nemendur í sínum skóla svari í sömu mynt.

„Bæði er veðrið of vont og alltof mikið sómafólk. Ég hef enga trú á því.“

Skemmst er að minnast þess vorið 2010, þegar MS mætti Verzló í úrslitum Morfís, var skít dreift við inngang Verzlunarskólans. Fór svo að Már Vilhjálmsson, rektor við MS, mætti sjálfur og mokaði skítinn af tröppum Verzló.

Vann MS sigur í Morfís það ár.


Tengdar fréttir

Kærðir fyrir að moka skít við aðaldyr Flensborgar

Fjórir 17 ára piltar verða kærðir fyrir skítmokstur í Hafnarfirði í nótt. Laust fyrir klukkan þrjú var lögreglunni tilkynnt um að menn væru að moka skít úr kerru við aðaldyr Flensborgarskólans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×