Innlent

"Þetta er litla barnið mitt“

Bjarki Ármannsson skrifar
Inga Ragnarsdóttir fylgist vel með ævintýrum sonar síns á Everest.
Inga Ragnarsdóttir fylgist vel með ævintýrum sonar síns á Everest. Vísir/Daníel/Aðsend
Ingólfur Axelsson, fjallagarpur frá Akureyri, er með Vilborgu Örnu Gissurardóttur í leiðangrinum sem heldur á efsta tind Everest-fjalls um þessar mundir. Ingólfur er sonur Ingu Ragnarsdóttur, sjúkranuddara og liðstjóra íslenska karlalandsliðsins í handbolta til margra ára. Ingólfur og Vilborg eru komin í grunnbúðir fjallsins og Inga hefur fylgst vel með ferðalagi sonar síns.

„Mömmur fylgjast vel með börnum sínum, og pabbar,“ segir Inga. „Það er nú bara þannig.“

Inga heyrði síðast í Ingólfi í gær og segir hann bæði andlega og líkamlega hressan.

„Það var hvíldardagur í dag,“ segir Inga. „Nú stendur yfir þessi hæðaraðlögun eins og það heitir,“ bætir hún við en leiðangurinn er um þessar mundir staddur í um 5300 metra hæð. Inga neitar því ekki að hún sé örlítið smeyk að vita af syni sínum í hlíðum hæsta fjalls heims.

„Jú, það er bara ósjálfrátt,“ segir hún. „En það fer enginn meðaljón þangað upp. Maður þarf að vera frekar mikill ofurhugi bara til þess að detta þetta í hug.“

Myndi hún sjálf nokkurn tímann leggja í svona ferðalag?

„Nei nei,“ segir hún og hlær. „Ég myndi ekki einu sinni komast upp í grunnbúðirnar.“

Inga lét af störfum sem sjúkranuddari landsliðsins eftir Evrópumeistaramótið í janúar síðastliðnum.  Þá hafði hún starfað með liðinu frá því árið 2001.

„Þannig ég hef unnið mikið með ungu íþróttafólki og mér finnst mjög skemmtilegt að fylgjast með þessu flotta unga fólki fara á fjallið,“ segir Inga. Vilborg og Ingólfur segja bæði reglulega frá ferðalaginu á vefsíðum sínum og Inga lætur ekkert skref fram hjá sér fara.

„Þetta er litla barnið mitt,“ segir Inga og hlær. 


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.