Erlent

Edward Snowden fær sannsöglisverðlaun

Karl Ólafur Hallbjörnsson skrifar
Uppljóstrarinn Edward Snowden talar á ráðstefnu í Texas.
Uppljóstrarinn Edward Snowden talar á ráðstefnu í Texas. Vísir/AFP
Uppljóstrarinn Edward Snowden mun hljóta sannsöglisverðlaun Ridenhour ásamt Laura Poitras. New York Times greinir frá.

Snowden er af mörgum álitinn frelsishetja fyrir að hafa lekið trúnaðarupplýsingum NSA til fjölmiðla á seinasta ári. Upplýsingar og frekari fyrirgrennslan fjölmiðla í kjölfar lekans hafa leitt í ljós víðtækar persónunjósnir ýmissa vestrænna ríkja á eigin þegnum og þegnum annarra ríkja.

Poitras er fjölmiðlakonan sem aðstoðaði Snowden við að opinbera leynileg gögn Þjóðaröryggisstofnunnar Bandaríkjanna eða NSA. Danielle Brian, meðlimur dómnefndar fyrir verðlaunin, sagði nefndina hafa talið Poitras verið vanmetna. "Ef ekki væri fyrir hana þekktum við ekki nafnið Edward Snowden," sagði Brian.

Verðlaunin eru nefnd eftir uppgjafahermanninum Ronald Lee Ridenhour, en hann átti stóran þátt í að upplýsa um fjöldamorð bandarískra hermanna í My Lai í Víetnam. Síðar varð Ridenhour rannsóknarblaðamaður.

Verðlaunaafhendingin verður 30. apríl í Washington, en skipuleggjendur vona að hægt verði að ná tengingu við Snowden og Poitras svo þau geti birst á mynd fyrir afhendinguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×