Erlent

Efast um að Cobain hafi framið sjálfsvíg

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Courtney Love og Kurt Cobain á MTV-verðlaunahátíðinni árið 1993.
Courtney Love og Kurt Cobain á MTV-verðlaunahátíðinni árið 1993. Vísir/Getty
Í nýrri kvikmynd sem fjallar um dauða Kurt Cobain koma fram gögn sem styðja þær tilgátur að söngvarinn hafi ekki framið sjálfsmorð eins og úrskurðað var fyrir tuttugu árum síðan. Kvikmyndin, sem ber titilnn Soaked in Bleach, er byggð á sönnungargögnum sem notuð voru í máli sem fjallaði um dauða hans á sínum tíma.

Stikla úr myndinni hefur vakið athygli í netheimum. Hún er löng og ítarleg og skilur eftir spurningar sem verður væntanlega svarað í myndinni sjálfri sem kemur út á þessu ári. Stikluna má sjá hér að neðan.

Auk sönnunargagna í máli Cobains er vitnisburður lykilvitna notaður í bland við viðtöl þeirra sem hafa kynnt sér málið vel. Margir efast um að allur sannleikurinn um dauða Cobain sé kominn upp á yfirborðið, þrátt fyrir að rúmir tveir áratugir séu frá því að hann fannst látinn á heimili sínu.

Meðal þeirra sem tjá sig um málið í stiklunni er fyrrum yfirmaður lögreglunnar í Seattle, sem rannsakaði málið á sínum tíma. Hann segir að ef hann væri enn yfirmaður lögreglunnar myndi hefja nýja rannsókn á málinu.

Þetta er ein af þeim myndum sem birtust í síðasta mánuði af vettvangi hins meinta sjálfsvígs.Vísir/Lögreglan í Seattle
Aðalpersónan í kvikmyndinni er einkaspæjarinn Tom Grant, sem Courtney Love, eiginkona Cobain, réð til að finna eiginmann sinn eftir að hann hvarf úr meðferð skömmu fyrir dauða hans. 

Skömmu eftir að í ljós kom að Cobain væri látinn fór Grant að gruna Courtney Love um að eiga þátt í dauðanum. Í stiklunni kemur í ljós að Grant er enn á sama máli og virðist hafa kynnt sér málið ákaflega vel.

Í síðasta mánuði birtust áður óbirtar myndir af vettvangi hins meinta sjálfsvígs. Á myndunum má meðal annars sjá það sem virðist vera veski sem Cobain notaði til þess að geyma eiturlyf. 

Í kjölfar þess að myndirnar birtust var kröfðust margir að lögreglan í Seattle myndi opna rannsókn málsins á nýjan leik en lögregluyfirvöld töldu myndirnar ekki vera nægilegt tilefni til þess. 

Ljóst er að margir efast enn um að rokkarinn frægi hafi tekið sitt eigið líf. Eins og frægt er var Cobain sögnvari hljómsveitarinnar Nirvana. Sveitin gaf út fjórar plötur og hafa 75 milljónir eintaka selst um allan heim.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×