Erlent

Engin merki um eiturlyfjaneyslu Peaches Geldof

Ingvar Haraldsson skrifar
Lögreglumenn fyrir utan heimili Peaches Geldof í morgun.
Lögreglumenn fyrir utan heimili Peaches Geldof í morgun. Mynd/AFP
Fyrirsætan og sjónvarpskonan Peaches Geldof fannst látin á heimili sínu í Kent á Englandi í gær.

Fulltrúar lögreglunnar í Kent segja að dánarorsök sé ókunn. „Það voru engin merki um eiturlyfjaneyslu eða að hún hafi orðið fyrir ofbeldi. Ekkert sjálfsmorðsbréf fannst á vettvangi. Við rannsókn málsins gerum við ráð fyrir að hún hafi verið bráðkvödd þar til annað kemur í ljós. Krufning mun fara fram á næstu dögum. Þá munum við geta útskýrt málið frekar.“

Peaches Geldof var einungis 25 ára gömul. Hún skilur eftir sig eiginmann og tvo unga syni , Phaedra 11 mánaða og Astala tveggja ára.

Tom Cohen eiginmaður hennar sagði að fjölskyldan myndi elska hana að eilífu. „Ég mun ala börnin upp með hana í hjarta mér.“

Faðir hinnar látnu, tónlistarmaðurinn og Live-Aid skipuleggjandinn Bob Geldof, er eyðilagður vegna tíðindanna. „Hún var hressasta, klárasta, fyndnasta stelpa sem ég þekki. Hún var svo fallegt barn. Hvernig má það vera að við munum ekki hitta hana aftur?“


Tengdar fréttir

Peaches Geldof látin

Dóttir tónlistarmannsins Bob Geldof og Paula Yates látin, 25 ára að aldri.

Seinustu myndir Peaches

Seinasta myndin sem Peaches Geldof deildi á samfélagsmiðlunum Twitter var mynd af henni og móður hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×