Erlent

Sleppt úr fangelsi eftir að hafa setið saklaus inni í 25 ár

Samúel Karl Ólason skrifar
Jonathan Fleming, faðmar móður sína eftir 25 ár í fangelsi.
Jonathan Fleming, faðmar móður sína eftir 25 ár í fangelsi. Vísir/AP
„Mér líður stórkostlega. Ég hafði alltaf trú og vissi að þessi dagur myndi á endanum renna upp,“ segir Jonathan Fleming. Honum var sleppt úr fangelsi í dag eftir að hafa setið inni fyrir morð í 25 ár. Þegar morðið átti sér stað var hann í Flórída, um 1.800 kílómetrum frá vettvangi glæpsins í New York.

Saksóknarar ákváðu að taka málið aftur til skoðunar og þá fannst kvittun frá hóteli í Flórída og vitni bar vitnisburð sinn til baka. Þá stigu fram ný vitni sem sögðu annan mann bera ábyrgð á morðinu.

Á sínum tíma sagðist Fleming hafa verið í Flórída þegar vinur hans, Darryl Rush var skotinn til bana, en vitni sagðist hafa séð hann skjóta Rush. Þó hann hafi lagt fram flugfarmiða og póstkort frá Flórída dugði það ekki til.

Vitnið dró svo vitnisburð sinn til baka strax árið 1990 og sagðist hafa logið svo lögreglan myndi sleppa sér frá handtöku. Fleming tapaði þó áfrýjunum sínum. Verjendur hans báðu svo saksóknara New York borgar um að skoða málið að nýju í fyrra.

Saksóknarar fundu vitni sem ekki hafði verið rætt við áður sem bentu á annan mann vegna morðsins. Einnig fannst kvittun frá hóteli í Flórída, tímasett fimm tímum áður en morðið átti sér stað. Lögreglumenn fundu kvittunina í vasa Fleming þegar hann var handtekinn árið 1989, en hún var aldrei lögð fram sem sönnunargagn.

Patricia Fleming, móðir Jonathan, sagði AP fréttaveitunni að hún hafi  alltaf vitað að hann hafi ekki framið morðið, því hún hafi verið með honum í Flórída. „Þegar þeir dæmdu son minn í minnst 25 ára fangelsi, hélt ég að ég myndi deyja.“

„Ég gafst þó aldrei upp því ég vissi að hann var saklaus.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×