Erlent

Karlstripparar dönsuðu fyrir vistmenn elliheimilisins

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Myndin umrædda.
Myndin umrædda.
Mál hefur verið höfðað á hendur elliheimili á Long Island í New York-ríki Bandaríkjanna eftir að upp komst að karlstripparar höfðu verið ráðnir til þess að skemmta vistmönnum.

Sonur hinnar 86 ára gömlu Bernice Youngblood fékk áfall þegar hann heimsótti móður sína og sá þar ljósmynd af henni að troða peningaseðlum í nærbuxur eins dansaranna. Á myndinni sáust aðrir vistmenn sem ýmist virtust himinlifandi eða í sjokki yfir dansinum.

Fjölskylda Youngblood kvartaði við starfsfólk elliheimilisins og fullyrðir sonurinn að hjúkrunarkona hafi þá reynt að hrifsa af honum ljósmyndina. Síðar sagði starfsmaður syni annars vistmanns að nektardansinn hefði verið saklaus skemmtun.

Þá krefst fjölskylda Youngblood þess að fá að vita hvers vegna hún heldur á peningaseðlum á myndinni, en ráðstöfunarfé hennar á að vera geymt inni á lokuðum reikningi.

Talið er að uppátækið sé ekki einstakt tilfelli og segir lögfræðingur Youngblood-fjölskyldunnar að gömlu konuna skorti andlega og líkamlega burði til þess að verja sig. Hún hafi verið vanvirt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×