Erlent

Minnislausi maðurinn er Tékki

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AP
Lögreglan í Ósló hefur komist að því hver minnislausi maðurinn sem talar fimm tungumál er. Interpol bar kennsl á hann sem tékkneskan ríkisborgara. Hann gengið undir nafninu John Smith síðan hann fannst ráfandi um í snjónum í Ósló í desember, í slæmu ásigkomulagi.

Lögreglan vill ekki segja frá nafni mannsins að svo stöddu. Foreldrar mannsins höfðu samband við lögregluna í Tékklandi eftir að myndir af honum voru gefnar til fjölmiðla.

Hann sagði VG að hann væri mjög ánægður. „Ég hafði áhyggjur af því að það myndi taka mig langan tíma að komast að því hver ég er, en það tók bara tvo daga. Það er gjörsamlega frábært.“

Hann segist hafa fengið marga tölvupósta frá einstaklingum sem sýndu ástandi hans forvitni og vill þakka þeim fyrir stuðninginn. Hann hafi verið hræddur um að fólk myndi hæðast að honum, en segir svo ekki vera.

Þá vill hann vera áfram í Noregi á meðan hann gengst í gegnum meðferð við minnisleysinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×