Erlent

11 milljarða tekjur Colorado-ríkis af marijuana

Jakob Bjarnar skrifar
Coloradó-búi kveikir sér í marijuana-vindlingi.
Coloradó-búi kveikir sér í marijuana-vindlingi. AP
Coloradó-ríki í Bandaríkjunum lögleiddi kannabis á síðasta ári.  Tekjur ríkisins hafa farið fram úr björtustu vonum en skatttekjur af sölu marijuana stefna í að verða rúmir 11 milljarðar króna á síðasta ári.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá John Hickenlooper ríkisstjóra í tengslum við fjárhagsáætlun en þegar íbúar ríkisins kusu um hvort lögleiða ætti kannabis var talað um að tekjur gætu hugsanlega numið 8 milljörðum króna. Hagnaðurinn er því talsvert meiri en vonir stóðu til.

Sala af marijuana til afþreyingar, eða hvernig skal orða það, er skattlögð um 12,9 prósent í Coloradó. Kannabis sem selt sem lyf er skattlagt um 2,9 prósent. Í ljósi 11 milljarða króna tekna sem kemur í gegnum þessa skattlagningu hefur Hickenlooper lagt til að öllu þessu fé verði varið í málefni sem tengjast kannabis; forvarnarstarf fyrir unglinga og meðferðarstarfsemi fyrir þá sem lenda í vandræðum með fíkn sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×