Erlent

Hættuástand vegna flóða

Birta Björnsdóttir skrifar
Hættuástandi hefur verið lýst yfir á 16 svæðum meðfram Thames-ánni í Bretlandi í kjölfar mikilla flóða í ánni undanfarna daga. Þá eru um 2.500 heimili í nágrenni árinnar talin í eyðileggingarhættu.

David Cameron hefur heimsótt flóðasvæðin undanfarna daga og hefur þar áréttað að allt verði gert til að koma til móts við þá sem hafa orðið fyrir eignatjóni vegna flóðanna. Yfirvöld í Bretlandi hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir að bregðast hægt og illa við vatnsveðrinu, en sum svæði á Suður-Englandi hafa legið í vatnsbaði undanfarinn mánuðinn. Þá hafa flóðin valdið talsverðri röskun á lestarsamgöngum á svæðinu.

Breski herinn var í gærkvöldi og í nótt að störfum við Thames og hlóð varnargarða í þeirri von að hægt yrði að verja hús í nágrenni árinnar fyrir flóðum.

Ekki er útlit fyrir að vatnsveðrið sé í rénun alveg á næstunni, en spáð er talsverðri rigningu með kvöldinu í Bretlandi.

Ákærður fyrir morð, nauðganir og valdarán

Bosco Ntganda, fyrrverandi uppreisnamaður og stríðsherra, kom fyrir alþjóðaglæpadómstólinn í Haag fyrr í dag. Þar fara fram réttarhöld yfir honum og er hann meðal annars ákærður fyrir morð, nauðganir, valdarán og notkun á börnum í hernaði, bæði sem uppreisnarmaður og sem hermaður í kongóska hernum. 

Ntganda, sem hefur viðurnefnið Tortímandinn, gaf sig fram við yfirvöld í mars í fyrra eftir að hafa verið eftirlýstur af alþjóða stríðsglæpadómstólnum.

Ákærurnar eru í 18 liðum og eiga verknaðirnir að hafa átt sér stað í Rúanda og Kongó, en Ntganda hefur neitað öllum ásökunum sem á hann eru bornar.

Ákæruvaldið lætur því nú reyna á hvort næg sönnunargögn séu fyrir hendi til að fá hann dæmdan fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×