Innlent

Rekstrarörðugleikar ástæða uppsagna í Hrísey

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Hrísey.
Frá Hrísey. Vísir/Friðrik Þór
„Ástæða uppsagnanna er rekstrarörðuleikar, það vantar fisk og það er búin að vera leiðindatíð og lítil veiði. Það er erfiður rekstur á þessu,“ segir Þröstur Jóhannsson, einn eigenda Hvamms. Þrettán manns fengu uppsagnarbréf hjá fyrirtækinu í dag en útgerðarfélagið er stærsti vinnustaðurinn í Hrísey.

Um er að ræða fiskvinnslu sem hefur verið með tvo smábáta í viðskiptum og annar þeirra hefur verið gerður út af eigendum fyrirtækisins. Starfsmenn fyrirtækisins hafa uppsagnarfrest til 1. júní. Báðum sjómönnum fyrirtækisins var ekki sagt upp.

„Við munum nota tímann til að reyna að finna flöt á þessu,“ segir Þröstur.

Fyrirtækið hefur verið staðsett í núverandi húsnæði í tvö ár. Hvammur keypti gömlu fiskvinnslu KEA af Byggðastofnun og færði fiskvinnslu sína þangað.  „Við keyptum húsið fullir bjartsýni,“ segir Þröstur.

„Vinnslan hefur starfað með þessu formi í 14 ár. Þetta hefur verið erfiðara síðustu tvö árin. Þá hefur verið erfiðara að ná í fisk á þessum tveimur litlu bátum. Það hefur verið lengra að fara.“

„Þau áform sem við höfðum uppi fyrir tveimur árum hafa ekki gengið eftir vegna erfiðleika í rekstri og hráefnisöflun. Við ákváðum því að fara þessa leið og sjá hvað næstu vikur og mánuðir bera í skauti sér.“


Tengdar fréttir

13 manns sagt upp í Hrísey

Útgerðarfélagið Hvammur í Hrísey mun segja upp öllum landverkamönnum fyrirtækisins, sem er 15 talsins, um næstu mánaðarmót.

„Vissum að það vantaði meiri fisk“

"Þetta fyrirtæki er burðarásin í Hrísey. Þetta er eins og Samherji myndi segja upp öllum sínum landverkamönnum á Akureyri,“ segir starfsmaður hjá útgerðarfélaginu Hvammi í Hrísey.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×