Erlent

Tungljeppinn Yutu í miklum vandræðum

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Sólarrafhlöður jeppans eru hvíldar yfir nóttina á tunglinu til þess að spara rafmagn.
Sólarrafhlöður jeppans eru hvíldar yfir nóttina á tunglinu til þess að spara rafmagn. vísir/afp
Kínverski tungljeppinn Yutu, sem lenti á yfirborði tunglsins í geimfarinu Chang'e 3 í desember, er í vandræðum. Jeppinn virðist vera bilaður, nú þegar leiðangurinn er aðeins hálfnaður, og er óvíst hvort takist að laga hann.

Kínverskir fjölmiðlar hafa greint frá biluninni og er „vitnað“ í jeppann sjálfan. Hann segist hafa verið að fara „að sofa“ þegar biluninnar varð vart, en sólarrafhlöður jeppans eru hvíldar yfir nóttina á tunglinu til þess að spara rafmagn.

Ein nótt á tunglinu er 14 daga löng og fer kuldinn þá niður í allt að 180 gráðu frost. Takist ekki að hvíla jeppann í þessum mikla kulda er hætta á að hann skemmist.

Að sögn Sævars Helga Bragasonar hjá Stjörnufræðivefnum er leiðangrinum þó líklega ekki lokið þrátt fyrir bilunina. „Þeir eru örugglega að reyna að finna einhverjar leiðir til þess að laga þetta. Marsjeppi Bandaríkjamanna hefur bilað og þeir finna alltaf leiðir til að laga það.“

Sævar segir að þó sé töluverður munur á þessum kínverska leiðangri og bandarískum og evrópskum leiðöngrum. „Þeir halda upplýsingunum svolítið fyrir sig. Það hafa til dæmis verið birtar merkilega fáar myndir.“

Í tilkynningu jeppans segir hann óvíst hvort hann muni lifa nóttina á tunglinu af. „Sólin er sest og hitinn lækkar mjög hratt. En ég skal deila með ykkur leyndarmáli. Ég er ekki sorgmæddur. Þetta var ævintýri mitt og líkt og allar hetjur þá lenti ég í vandræðum. Góða nótt jörð, og góða nótt mannkyn.“

Nánar má lesa um leiðangurinn á Stjörnufræðivefnum.


Tengdar fréttir

Kínverjar stefna á tunglið

Senda könnunarjeppa til tunglsins í næsta mánuði. Geimstöð og mannaðar ferðir á teikniborðinu.

Kínverjar lenda á tunglinu í dag

Geimfarinu var skotið á loft þann 1. desember. Leiðangurinn er sögulegur, og er þetta í fyrsta sinn sem Kínverjar lenda á tunglinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×