Erlent

Stjórnarandstöðunni spáð góðum sigri

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Kjósendur í borginni Varanasi biðu þess að komast í kjörklefann.
Kjósendur í borginni Varanasi biðu þess að komast í kjörklefann. Vísir/AFP
Þingkosningum á Indlandi lauk í gær, en þær hafa staðið yfir síðustu sex vikurnar. Fjöldi kosningabærra manna er það mikill, eða 814 milljónir, að ekki þótti fært annað en að halda kosningarnar í níu áföngum.

Milljónir manna tóku þátt í síðasta áfanganum í gær, en reiknað er með því að úrslit liggi fyrir á föstudaginn.

Útgönguspár benda til þess að Narendra Modi, forsætisráðherraefni stjórnarandstöðuflokksins Baharatiya Janata, verði næsti forsætisráðherra landsins.

Helsti mótherji hans er Rahul Gandhi, en hann er varaformaður Kongress-flokksins og sonur Soniu Gandhi, sem er formaður flokksins. Kongress-flokkurinn hefur verið við völd á Indlandi síðustu tvö kjörtímabil en Manmohan Singh forsætisráðherra gaf ekki kost á sér til framboðs að þessu sinni.

Baharatiya Janata-flokkurinn þykir heldur hægrisinnaðri en Kongress-flokkurinn, en Modi hefur verið forsætisráðherra Gujarat-ríkis á Indlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×