Erlent

Merkel hyllir fall Berlínarmúrsins

Atli Ísleifsson skrifar
Angela Merkel Þýskalandskanslari flutti ávarp fyrr í dag.
Angela Merkel Þýskalandskanslari flutti ávarp fyrr í dag. Vísir/AFP
Fall Berlínarmúrsins fyrir aldarfjórðungi hefur kennt heimsbyggðinni að draumar geti ræst og að ekkert þurfi að viðhaldast óbreytt. Þetta sagði Angela Merkel, kanslari Þýskalands, þegar hún ávarpaði mannfjölda til að minnast tímamótanna fyrr í dag.

Merkel sagði skilaboðin til þeirra í löndum þar sem brotið sé á réttindum vera þau að hlutir og aðstæður gætu skánað. Fyrr í dag sótti kanslarinn athöfn þar sem fórnarlamba stjórnar Austur-Þýskalands var minnst.

Berlínarmúrinn var reistur árið 1961 til að koma í veg fyrir að fólk flýði Austur-Þýskaland til vestursins. Múrinn féll á þessum degi árið 1989 og varð ein helsta táknmynd endaloka kalda stríðsins.

Síðar í dag verður sjö þúsund hvítum blöðrum sleppt en blöðrurnar eru nú á 3,6 metra háum staurum sem tákna hæð múrsins.

Í frétt BBC kemur fram að tónleikar og „borgaralegur fögnuður“ hafi verið haldnir við Brandenborgarhlið í dag.

Merkel, sem ólst sjálf upp í Austur-Þýskalandi, kom fyrr í dag fyrir rósum í einum af þeim hlutum múrsins sem enn standa.

Merkel opnaði nýja upplýsingamiðstöð um múrinn og sagði við það tilefni að auðvelt væri að gleyma því sem gerst hafði, en nauðsynlegt væri að muna. „Við getum breytt hlutum til hins betra. Þetta eru skilaboð til Úkraínu, Íraks og annarra staða þar sem mannréttindum er ógnað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×