Enski boltinn

Sir Alex að "stela" undrabarninu af Wenger

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wilfried Zaha.
Wilfried Zaha. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, er langt kominn með að ganga frá kaupunum á Wilfried Zaha frá Crystal Palace en Daily Mirror segir frá því í dag að Sir Alex hafi hitt leikmanninn um helgina á hóteli í London.

Manchester United hefur samkvæmt sömu heimildum samþykkt að borga 15 milljónir punda fyrir leikmanninn sem hefur verið sterklega orðaður við Arsenal á síðustu vikum. Nú stefnir hinsvegar í það að Ferguson "steli" honum af Arsene Wenger, stjóra Arsenal en þarf að borga dágóða upphæð til þess.

Wilfried Zaha er 20 ára framherji og hefur hingað til verið stuðningsmaður Arsenal. Hann er samt sáttur við að fara norður til United en hann mun þar líklega tífalda launin sín í dag.

Zaha er með 5 mörk og 6 stoðsendingar í 27 leikjum með Crystal Palace í ensku b-deildinni á þessu tímabili en aðeins tvö þessara marka (1 mark + 1 stoðsending) hafa komið í undanförnum tólf leikjum.

Crystal Palace fær tíu milljónir punda strax en aðrar fimm milljónir gætu síðan bæst við nái Wilfried Zaha ákveðnum markmiðum með United hvað varðar leiki og árangur. Svo gæti farið að Wilfried Zaha verði lánaður aftur til Crystal Palace út þetta tímabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×