Erlent

Gömul skinkupressa reyndist vera sjaldgæfur loftsteinn

Spænski bóndinn Faustino Lopez er óvænt orðinn yfir  600 milljónum króna ríkari. Í ljós kom að áratuga gömul skinkupressa hans var í raun sjaldgæfur loftsteinn.

Upphaf málsins má rekja 33 ár aftur í tímann þegar Faustino fann um 100 kílóa þungan járnklump á einum af ökrum sínum suður af Madrid. Faustino taldi að um eitthvert stríðsrusl frá spænska borgarastríðinu væri að ræða.

Vegna þyngdar klumpsins ákvað bóndinn hinsvegar að hirða hann og nota við heimaframleiðslu sína á þurrkuðum skinkum. Klumpurinn var því notaður sem skinkupressa næstu áratugina.

Eftir að hafa séð sjónvarpsþátt um loftsteina hafði Faustino samband við sérfræðing í fyrra sem fljótlega komast að hinu sanna um uppruna skinkupressunar. Skömmu síðar var Faustino Lopez orðinn mjög efnaður bóndi.

Í frétt um málið á vefsíðu Verdens Gang segir að hluti af loftsteini þessum sé nú til sýnis á náttúrugripasafninu í Madrid sem og eftirlíking af honum í upprunalegri stærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×