Erlent

Segjast vera komnir með rússnesku flaugarnar

mynd/afp

Sýrlandsforseti fullyrðir að Rússar hafi þegar afhent Sýrlendingum fyrstu sendinguna af háþróðuðum loftvarnaflaugum. Þetta kom fram í viðtali við forsetann Bashar al-Assad á Líbanskri sjónvarpsstöð í gærkvöldi. Rússar lofuðu Sýrlendingum vopnunum fyrr í þessari viku þrátt fyrir áköf mótmæli vesturveldanna.

Í viðtalinu sagði al-Assad að borgarastríðið í landinu sé að snúast stjórnvöldum í hag. Uppreisnarmenn í landinu fullyrða að stríðsmenn á vegum Hezbollah samtakanna í Líbanon hafi þegar ráðist inn í Sýrland til þess að koma forsetanum til hjálpar í baráttunni við uppreisnarmenn. Herforingi uppreisnarmanna segir að um sjöþúsund Hezbollah menn taki nú þátt í árásum á borgina Quisar sem er á valdi uppreisnarmanna.

Herforinginn, Selim Idriss sendi út ákall til vesturveldanna í viðtali á BBC í gærkvöldi  og þrábað um vopn frá Bandaríkjunum eða Evrópu til þess að berjast við stjórnarherinn. Uppreisnarmenn í Quisar séu aðeins um fimmtánhundruð og því sé við mikið ofurefli að etja. Um fimmtíuþúsund almennir borgarar eru í bænum og óttast uppreisnarmenn blóðbað nái stjórnarherinn tökum á Quisar.

Loftvarnakerfið sem Rússar hafa lofað Sýrlensku stjórninni er afar fullkomið og getur það skotið niður flugvélar og langdrægar eldflaugar. Ísraelar hafa mótmælt áformunum hástöfum og hafa látið að því liggja að þeir bregðist við af hörku setji Sýrlendingar kerfið upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×