Erlent

Zimmerman ekki enn laus allra mála

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Þúsundir manna héldu út á götur Bandaríkjanna um helgina til að mótmæla sýknudómnum.
Þúsundir manna héldu út á götur Bandaríkjanna um helgina til að mótmæla sýknudómnum. Mynd/AP
Skipulögð mótmæli gegn sýknudómnum yfir George Zimmerman héldu áfram víða í borgum Bandaríkjanna í gær, annan daginn í röð. Mótmælendur vonast til að geta haldið dampinum áfram, en leggja áherslu á að mótmælin verði friðsamleg.

Bandaríska dómsmálaráðuneytið segist hins vegar byrjað að kanna möguleika á því að draga Zimmerman á ný fyrir alríkisdóm í einkamáli. Óljóst er þó hvort bandarísk lög heimila það.

Hann er því ekki laus allra mála þótt hann hafi gengið frjáls maður út úr réttarsalnum í Flórída á laugardag. Hann var sýknaður af ákæru um að hafa myrt sautján ára pilt að óyfirlögðu ráði.

Pilturinn hét Trayvon Martin og var dökkur á húð en Zimmerman er af suður-amerískum ættum. Sýknudómurinn hefur því verið gagnrýndur fyrir að bera öll merki kynþáttafordóma.

Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur hvatt fólk til að sýna stilli, þrátt fyrir að málið veki upp sterkar tilfinningar.

Ekki er um það deilt að Zimmerman varð Martin að bana í febrúar á síðasta ári. Zimmerman var sjálfboðaliði í nágrannavörslu þegar hann kom auga á Martin í húsagarði. Martin flúði þegar Zimmerman hljóp til hans, en viðureign þeirra lauk með því að Martin lá í valnum.

„Hefði nú Trayvon Martin veifað byssu og elt óvopnaðan George Zimmerman, og síðan skotið hann til bana…Þarf ég nokkuð að ljúka þessari setningu?“ spurði kvikmyndagerðarmaðurinn Michael Moore á Twitter-síðu sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×