Erlent

Þingmaður misskildi fréttir

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Mótmælendur brenndu líkneski af Barack Obama Bandaríkjaforseta á mánudag.
Mótmælendur brenndu líkneski af Barack Obama Bandaríkjaforseta á mánudag. Fréttablaðið/AP
Óljóst var í gær hvort bandaríski uppljóstrarinn Edward Snowden hefði þegið boð um hæli í Venesúela.

Rússneski þingmaðurinn Alexei Púshkov fullyrti það á Twitter-síðu sinni, en sagðist síðar hafa þær upplýsingar eftir rússnesku sjónvarpsstöðinni Vesti. Samkvæmt upplýsingum frá Vesti virðist Púshkov þó hafa misskilið frétt stöðvarinnar.

Nicolas Maduro, forseti Venesúela, staðfestir hins vegar að Snowden hafi óskað eftir hæli. Maduro hafði áður boðið Snowden hæli í landinu, en átti eftir að fá fréttir af því hvort hann myndi þiggja það.

Snowden er, eftir því sem best er vitað, enn á flugvellinum í Moskvu eftir að hafa ljóstrað upp um stórfelldar gagnanjósnir bandarísku þjóðaröryggisstofnunarinnar, NSA.

Bólivía og Níkaragva hafa einnig samþykkt að veita honum hæli. Mikill stuðningur er við Snowden meðal stjórnvalda margra Suður-Ameríkuríkja, ekki síst eftir að forseti Bólivíu var neyddur til að lenda í Austurríki á leið sinni frá Moskvu til Bólivíu í síðustu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×