Erlent

Vilja viðræður við bandarísk stjórnvöld

Fréttaskýrendur telja að yfirlýsingunni sé fyrst og fremst ætlað að slá ryki í augu alþjóðasamfélagsins.
Fréttaskýrendur telja að yfirlýsingunni sé fyrst og fremst ætlað að slá ryki í augu alþjóðasamfélagsins. Nordicphotos/Getty
Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa farið fram á viðræður um öryggis- og kjarnorkumál við bandarísk stjórnvöld.

Greint var frá þessu í yfirlýsingu frá Varnarmálanefnd ríkisins í norður-kóreska ríkisútvarpinu í gær. Nokkrum dögum fyrr höfðu Norður-Kóreumenn dregið sig út úr viðræðum um sama mál við erkióvinina í Suður-Kóreu.

Í yfirlýsingunni kemur fram að vilji sé fyrir hendi hjá Varnarmálanefndinni til að ræða málin í fullri alvöru og reyna þannig að tryggja frið og stöðugleika. Bandaríkjamenn svöruðu því til að Norður-Kóreumenn yrðu þá að framfylgja ályktunum Sameinuðu þjóðanna og hefja kjarnorkuafvopnun.

Fyrr á þessu ári hótuðu Norður-Kóreumenn að varpa kjarnorkusprengjum á bæði Suður-Kóreu og Bandaríkin og uppi eru alvarlegar efasemdir um að hugur fylgi máli í þessari viljayfirlýsingu um umræður. Auk þess hafa þeir á undanförnum árum gert þrjár tilraunir með kjarnorkuvopn.

Fréttaskýrendur telja að yfirlýsingin í gær sé í raun fyrst og fremst tilraun til að slá ryki í augu alþjóðasamfélagsins og reyna þannig að afla meiri fjárhagsaðstoðar.

Bandaríkjamenn og Norður-Kóreumenn hafa ekki átt í formlegum viðræðum síðan árið 2009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×