Erlent

Friðargæsluliðar kallaðir heim

Uppreisnarmenn náðu um stutta stund tökum á svæði við hlutlausa svæðið milli Ísraels og Sýrlands.
Uppreisnarmenn náðu um stutta stund tökum á svæði við hlutlausa svæðið milli Ísraels og Sýrlands.

Austurríkismenn ætla að kalla tæplega fjögur hundruð friðargæsluliða Sameinuðu þjóðanna heim frá Gólanhæðum eftir síðustu átök milli sýrlenska stjórnarhersins og uppreisnarmanna.

Í gær náðu uppreisnarmenn um stutta stund völdum á svæðinu, nálægt landamærunum við Ísrael, sem hefur aukið áhyggjur um að stríðið í landinu færist til fleiri landa. Nú þegar hafa átökin borist yfir landamæri landsins til Tyrklands og Líbanons.

Kanslari og utanríkisráðherra Austurríkis segja bardaga gærdagsins við Gólanhæðir, hlutlaust svæði á milli Ísraels og Sýrlands, hafa sýnt að ekki hafi verið hægt að bíða lengur með að flytja friðargæsluliðana burt.

Utanríkisráðuneyti Ísraels sendi frá sér tilkynningu þar sem þessi ákvörðun var hörmuð. Ráðuneytið segist vonast til þess að brotthvarf friðargæsluliðanna muni ekki hafa áhrif á framvindu mála á svæðinu.

Friðargæsluliðar frá Filippseyjum og Indlandi eru enn á svæðinu, en Austurríkismenn voru fjölmennastir á svæðinu. Króatar drógu sig út úr verkefninu í mars vegna átakanna í Sýrlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×