Erlent

Vill að notkun dróna verði hætt

Þorgils Jónsson skrifar
Drónar Ómannaðar flaugar Bandaríkjahers hafa reynst árangursríkar í baráttunni gegn talibönum og öðrum hópum vígamanna. Fjölmargir óbreyttir borgarar hafa hins vegar fallið í árásum dróna, sem hefur vakið mikla úlfúð.
Drónar Ómannaðar flaugar Bandaríkjahers hafa reynst árangursríkar í baráttunni gegn talibönum og öðrum hópum vígamanna. Fjölmargir óbreyttir borgarar hafa hins vegar fallið í árásum dróna, sem hefur vakið mikla úlfúð. Nordicphotos/AFP

Eitt fyrsta stefnumálið sem Nawaz Sharif, nýkjörinn forsætisráðherra Pakistans, kynnti í setningarræðu sinni á þingi í morgun var að Bandaríkjamenn létu af notkun fjarstýrðra sprengjuloftfara, svokallaðra dróna, í landinu.

Frá árinu 2004 hafa bandarísk yfirvöld beitt sprengjum sem varpað er úr drónum gegn vígamönnum, þar á meðal talibönum og al-Qaida, í fjallahéruðum Pakistans við landamæri Afganistans.

Engar opinberar tölur eru til um mannfall vegna þessa árása, en samkvæmt mati félagasamtaka og fræðimanna sem hafa kynnt sér málið út frá fréttaflutningi hafa á milli 2.500 og 3.500 manns fallið í Pakistan í slíkum aðgerðum. Meðal hinna látnu eru 400 til 900 almennir borgarar, þar af eru allt að 200 börn.

Af þeim sökum eru aðgerðirnar afar umdeildar og hafa vakið mikla reiði meðal pakistönsku þjóðarinnar, sem lítur á árásirnar sem aðför að fullveldi landsins.

Eitt af stefnumálum Sharifs, sem hefur í tvígang áður gegnt embætti forsætisráðherra, fyrir nýafstaðnar kosningar var að binda enda á aðgerðir dróna. Hann gaf þó ekkert upp um hvernig hann hyggðist binda enda á aðgerðirnar, en Bandaríkin álíta þær mikilvægan þátt í baráttunni gegn vígamönnum. Þeim hefur einnig verið beitt gegn vígamönnum í Jemen, Sómalíu og Afganistan.

Barack Obama Bandaríkjaforseti sagði meðal annars í ræðu fyrir skemmstu að notkun dróna væri „ill nauðsyn“ sem þó mætti ekki nýta í óhófi eða misnota.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×