Erlent

Táragasið streymdi í Istanbúl

ÞJ skrifar
Þessi maður flúði undan táragasi sem tyrkneska lögreglan skaut að hópi mótmælenda í miðborg Istanbúl.
Þessi maður flúði undan táragasi sem tyrkneska lögreglan skaut að hópi mótmælenda í miðborg Istanbúl. Fréttablaðið/AP

Til harðra átaka kom í Istanbúl í gær þar sem tyrkneska lögreglan beitti meðal annars táragasi og háþrýstivatnsbyssum í átökum við mótmælendur.

Lögregla lét til skarar skríða í birtingu í gær til að reka á brott hóp fólks sem hafði í þrjá daga mótmælt á friðsaman hátt fyrirhuguðum breytingum á Taksim-torgi. Þær fela meðal annars í sér að trjágróður verði fjarlægður úr almenningsgarði í nágrenninu.

Tólf mótmælendur þörfnuðust aðhlynningar á sjúkrahúsi og að minnsta kosti þrettán manns voru handteknir. Aðgerðir lögreglu kyntu þó undir óánægjubáli sem braust út í mótmælum víða um land, meðal annars í höfuðborginni Ankara. Atburðir gærdagsins þykja einnig bera vott um aukna hörku stjórnar Recep Erdogans forsætisráðherra í garð gagnrýnisradda innanlands.

Innanríkisráðherra Tyrklands sagðist mundu rannsaka ásakanir um óhóflega valdbeitingu lögreglu en varði aðgerðirnar og sagði þær hafa beinst gegn ólöglegum mótmælum. Erdogan sjálfur vísaði kröfum mótmælenda á bug og lét þau orð falla að verkefnið umdeilda yrði leitt til lykta, „sama hvað þau gera“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×