Erlent

Skera á síðustu tengsl við suðrið

Þórunn Elísabet Bogadóttir skrifar
Vörubílar snúa til Suður-Kóreu frá Kaesong.
Vörubílar snúa til Suður-Kóreu frá Kaesong. Fréttablaðið/ap
Norður-Kóreumenn segjast hafa ákveðið að loka Kaesong-verksmiðjusvæðinu tímabundið og hyggjast kalla 53 þúsund starfsmenn úr vinnu þar.

Norður- og Suður-Kóreumenn hafa rekið Kaesong-iðnaðarsvæðið í sameiningu rétt norðan við hlutlausa svæðið á milli ríkjanna tveggja. Á svæðinu starfa 120 fyrirtæki. Með lokuninni hafa Norður-Kóreumenn skorið á síðustu tengsl sín við nágrannana í suðri. Lokun verksmiðjanna þykir sýna að stjórnvöld í Pjongjang eru tilbúin að eyðileggja fyrir eigin hagkerfi til þess að sýna reiði sína í garð Suður-Kóreu og Bandaríkjanna. Svæðið er efnahagslega mikilvægt fyrir Norður-Kóreu.

Ástandið á Kóreuskaganum hefur sem kunnugt er versnað undanfarnar vikur, ekki síst eftir sameiginlegar heræfingar S-Kóreu og Bandaríkjanna. N-Kóreumenn hafa hótað því að ráðast gegn Bandaríkjunum. Stjórnvöld í Suður-Kóreu sögðust í gær ekki sjá nein merki um að Norður-Kóreumenn væru að undirbúa kjarnorkusprengingu, en þau telja líklegt að tilraunaeldflaug verði skotið á loft á næstu vikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×