Erlent

Áfram ófær um að loka Guantanamo

Guðsteinn skrifar
Obama segist hafa hugleitt að neita að undirrita lögin.nordicphotos/AFP
Obama segist hafa hugleitt að neita að undirrita lögin.nordicphotos/AFP
Barack Obama Bandaríkjaforseti undirritaði á miðvikudaginn lög um fjármögnun hernaðarumsvifa. Alls eru 633 milljarðar dala ætlaðir til þessa málaflokks á árinu, eða rúmlega 80.000 milljarðar króna.

Þetta er þó nokkru lægri upphæð en Bandaríkjaþing hefur veitt til hersins á undanförnum árum, en samdrátturinn skýrist meðal annars af minni umsvifum hersins, einkum í Írak og Afganistan.

Obama sagðist reyndar andvígur nokkrum ákvæðum lagabálksins, sem hann undirritaði engu að síður. Meðal annars gagnrýndi hann að áfram fylgdi lögunum ákvæði sem gera honum ókleift að flytja fanga frá Guantanamo-búðunum á Kúbu til fangelsa í Bandaríkjunum eða til annarra landa.

„Ég er enn þeirrar skoðunar að starfræksla búðanna grafi undan þjóðaröryggi okkar með því að kasta fjármunum á glæ, skemmi fyrir samskiptum okkar við mikilvæga bandamenn og styrki óvini okkar,“ segir í yfirlýsingu sem Obama sendi frá sér við undirritun laganna.

Eitt af helstu kosningaloforðum Obamas var að loka fangabúðunum á Kúbu og flytja grunaða hryðjuverkamenn í fangelsi í Bandaríkjunum, þar sem hægt yrði að draga þá fyrir bandaríska dómstóla. Meirihluti repúblikana á þingi hefur hins vegar beitt lagaákvæði af þessu tagi til að koma í veg fyrir að þau áform næðu fram að ganga.

„Áratugum saman hafa ríkisstjórnir bæði repúblikana og demókrata lögsótt með góðum árangri hundruð hryðjuverkamanna fyrir alríkisdómstólum,“ sagði Obama og fór ekki dult með andstöðu sína.

Í yfirlýsingu sinni segist Obama hafa hugleitt að neita að skrifa undir lögin af þessum ástæðum, eins og hann gerði á síðasta ári þegar hann undirritaði sams konar lög, en rétt eins og í fyrra hefði niðurstaðan orðið sú að nauðsyn þess að útvega hernum fé til að starfa áfram vægi þyngra en andstaða forsetans við hluta laganna.

Niðurskurður á fjárframlögum til hersins er hluti af samkomulagi forsetans við þingmenn Repúblikanaflokksins sem gert var á síðustu stundu nú um áramótin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×